Van Dijk og Salah til Al-Ahli? - United vill fá Pau Torres - Ronaldo segir Al-Nassr að gera tilboð í De Bruyne - Alonso arftaki Ten Hag?
   mán 08. júlí 2024 21:33
Ívan Guðjón Baldursson
2. deild: Selfoss náði jafntefli eftir góða endurkomu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Heimasíða Selfoss
Selfoss 2 - 2 KFG
0-1 Bjarki Hauksson ('9)
0-2 Jón Arnar Barðdal ('59)
1-2 Jón Vignir Pétursson ('74)
2-2 Reynir Freyr Sveinsson ('91)

Lestu um leikinn: Selfoss 2 -  2 KFG

Selfoss tók á móti KFG í áhugaverðum slag í 2. deild karla í kvöld og tóku gestirnir úr Garðabæ forystuna snemma leiks.

KFG voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og skoraði Bjarki Hauksson á níundu mínútu. Selfyssingar unnu sig inn í leikinn og voru óheppnir að gera ekki jöfnunarmark eftir hornspyrnu á 34. mínútu.

KFG komst nálægt því að tvöfalda forystuna skömmu fyrir leikhlé og var mikið fjör í upphafi síðari hálfleiks, þar sem bæði lið fengu frábær færi til að skora áður en Jón Arnar Barðdal tvöfaldaði forystu KFG með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 59. mínútu.

Selfyssingar gerðu þrefalda skiptingu eftir aukaspyrnumarkið og svöruðu með sinni eigin aukaspyrnu. Fyrirliðinn Jón Vignir Pétursson minnkaði muninn með föstu og lágu skoti beint úr aukaspyrnu, sem fór í gegnum allan pakkann í vítateignum og endaði í netinu.

Robert Blakala gerði vel að halda Selfyssingum í leiknum með góðri markvörslu skömmu síðar en Selfoss tók svo algjöra stjórn á leiknum og jók sóknarþungann til muna. Það skilaði sér með nokkrum góðum tækifæri og tókst Reyni Frey Sveinssyni að jafna metin á 91. mínútu, eftir góðan undirbúning frá Ívani Breka Sigurðssyni og Aroni Fannari Birgissyni.

Selfoss sótti áfram í uppbótartímanum en skapaði ekki góð færi og urðu lokatölur 2-2 eftir fjöruga viðureign undir Ingólfsfjalli.

Selfoss trónir áfram á toppi 2. deildar þar sem liðið er með 26 stig eftir 11 umferðir, þriggja stiga forystu á Víking Ólafsvík.

KFG er fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið eftir þetta jafntefli, með 11 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner