Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
   mán 08. júlí 2024 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ekvador í sambandi við eftirsóttan Heimi
Mynd: Getty Images
Orri Rafn Sigurðarson greinir frá því að Heimir Hallgrímsson, sem hefur þjálfað landslið Jamaíku á undanförnum árum, sé gríðarlega eftirsóttur eftir að hafa sagt starfi sínu lausu um síðustu mánaðamót, eftir að Jamaíka var slegin úr leik eftir sigurlausa riðlakeppni Copa América.

Samkvæmt heimildum Orra hafði Heimir fengið símtöl og boð um þjálfarastöður frá Mið-Austurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum áður en fótboltasambandið í Ekvador setti sig í samband á dögunum.

Ekvador er með sterkt landslið sem skartar leikmönnum á borð við Piero Hincapié, Moisés Caicedo og Kendry Páez og situr í 30. sæti á heimslista FIFA.

Heimir hefur því úr ýmsum möguleikum að velja, þar sem bæði félagslið og landslið eru áhugasöm um að nýta sér krafta hans.

Heimir gerði frábæra hluti með íslenska landsliðið þar sem hann kom Strákunum okkar á tvö stórmót í röð, EM 2016 og HM 2018, og náði sögulegum árangri.

Þá hefur hann gert flotta hluti á síðustu tveimur árum með Jamaíka eftir að hafa þjálfað Al-Arabi í Katar í þrjú ár frá 2018 til 2021.


Athugasemdir
banner