Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 08. október 2024 13:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fylkir fer í gegnum listann - Brynjar Björn hefur áhuga
Verður Brynjar Björn næsti þjálfari Fylkis?
Verður Brynjar Björn næsti þjálfari Fylkis?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætla klára mótið með sæmd og stolti.
Ætla klára mótið með sæmd og stolti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það er ljóst að það verða þjálfarabreytingar hjá Fylki á næstunni. Fyrr í dag staðfesti Gunnar Magnús Jónsson að hann yrði ekki áfram með kvennaliðið og á sunnudag tilkynnti Rúnar Páll Sigmundsson að hann væri búinn að stýra sínum síðasta leik sem þjálfari karlaliðsins þar sem tvær umferðir eru eftir af deildinni og hann á leið í tveggja leikja bann. Ljóst varð um helgina að Fylkir verður í Lengjudeildinni á næsta ári, bæði karla- og kvennamegin.

Ekkert fast í hendi
„Það kemur eitthvað frá okkur mjög fljótlega um þetta hvoru tveggja," segir Ragnar Páll Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, við Fótbolta.net í dag þegar spurt var um þjálfaramálin.

Brynjar Björn Gunnarsson var ráðinn aðstoðarþjálfari Fylkis í sumar eftir að Olgeir Sigurgeirsson var látinn fara. Slúðrað hefur verið um að Brynjar taki við af Rúnari í lok tímabilsins. Er möguleiki að Brynjar Björn taki við?

„Það er ekkert fast í hendi um hvað gerist þar næst. Við erum rétt byrjaðir að fara í gegnum listann."

Hvernig horfir fallið úr Bestu deild karla við þér?

„Það eru náttúrulega vonbrigði og erfitt, en við jöfnum okkur á þessu."

Er skýrt í ykkar augum af hverju liðið fellur?

„Nei í rauninni ekkert eitt sem við getum bent á. Markaskorun gekk illa, vörnin gekk illa og það gekk illa. Við erum búnir að vera þarna [neðarlega í töflunni] í allt sumar."

Það hefur talsvert gustað um Fylki á þessu tímabili og meðal annars klúðrið tengt leikbanni fyrirliðans Ragnars Braga Sveinssonar sem taldi að hann væri í banni í leik gegn Breiðabliki en skömmu fyrir leik kom í ljós að svo var ekki.

„Þegar svona kemur upp þá náttúrulega reyna menn að skerpa á einhverjum verkferlum svo menn lendi ekki í svona klúðri aftur."

Rúnar Páll stýrir ekki fleiri leikjum, en mun hann stýra æfingum út mótið?

„Við reiknum með því, á þessum tímapunkti, að hann geri það. Það er hlé núna í hálfan mánuð, svo eru lokaleikirnir tveir," segir Ragnar Páll.

Væri spenntur fyrir því að taka við
Fótbolti.net ræddi við Brynjar Björn í kjölfarið og spurði hann út í þjálfarastarfið hjá Fylki.

„Stjórn og Rúnar tóku þessa ákvörðun (að hann myndi ekki vera áfram) fyrir leikinn gegn HK. Við sem vorum næstir honum vissum því af þessu. Síðan kom þetta fram í viðtölum eftir leikinn. Annað hefur ekkert verið rætt milli míns og Fylkis. Ég samþykkti að koma inn í þetta í júlí, sem skammtímalausn til að byrja með og að staðan yrði svo tekin í haust. Frá því á sunnudag hefur allavega enginn frá Fylki verið í sambandi við mig. Við erum núna í smá landsleikjapásu og svo klárum við þetta tímabil, reynum að klára mótið með sæmd og stolti fyrir Fylki. Svo verður staðan skoðun, held ég," segir Brynjar Björn.

Værir þú spenntur fyrir því að taka við Fylki?

„Já, Fylkir er gott félag og umgjörðin og starfið þarna upp frá er mjög fínt. Ég myndi hafa áhuga á því," segir Brynjar Björn.
Athugasemdir
banner
banner