sun 08. desember 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bruce: Carroll hefði verið heimsklassa miðvörður
Andy Carroll.
Andy Carroll.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Andy Carroll var í byrjunarliði Newcastle í 2-0 sigrinum gegn Sheffield United í síðustu viku.

Þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur fyrir Newcastle í tæp níu ár, en hann sner aftur til liðsins síðasta sumar. Hann yfirgaf Newcastle í janúar 2011 er hann var keyptur til Liverpool. Hann fór svo til West Ham, en er nú kominn aftur til Newcastle.

Steve Bruce, þjálfari Newcastle, var ánægður með framherjann stóra og stæðilega eftir sigurinn á Sheffield United.

Carroll lagði upp umdeilt mark Jonjo Shelvey, en hann var líka mikilvægur þegar kom að því að verjast föstum leikatriðum.

„Hann hefði verið heimsklassa miðvörður ef hann hefði verið að spila á sama tíma og ég var að spila. Hann er með þann eiginleika að geta bara farið upp og skallað boltann," sagði Bruce um Carroll.

„Þegar hann er í kringum vítateiginn þá skallar hann boltann í burtu."

„Hann getur verið gríðarlega mikilvægur. Við þurfum að passa vel upp á hann."

Hinn þrítugi Carroll hefur átt í miklum vandræðum með meiðsli á undanförnum árum og kom hann meiddur til Newcastle. Bruce segir að það sé mikilvægt að passa vel upp á hann í þessum mánuði er það verður nóg að gera í enska boltanum.
Athugasemdir
banner
banner