Sevilla 1 - 4 Barcelona
0-1 Robert Lewandowski ('7)
1-1 Ruben Vargas ('9)
1-2 Fermin Lopez ('46)
1-3 Raphinha ('55)
1-4 Eric Garcia ('89)
Rautt spjald: Fermin Lopez, Barcelona ('61)
0-1 Robert Lewandowski ('7)
1-1 Ruben Vargas ('9)
1-2 Fermin Lopez ('46)
1-3 Raphinha ('55)
1-4 Eric Garcia ('89)
Rautt spjald: Fermin Lopez, Barcelona ('61)
Sevilla tók á móti Barcelona í síðasta leik dagsins í efstu deild spænska boltans og úr varð skemmtilegur leikur þar sem Robert Lewandowski skoraði eftir sjö mínútur.
Lewandowski gerði vel að vera réttur maður á réttum stað til að klára með marki í kjölfar hornspyrnu en Rúben Vargas var búinn að jafna tæpum 15 sekúndum síðar, beint eftir miðju hjá Sevilla.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og ákvað Hansi Flick að skipta Fermín López inn fyrir Gavi í leikhlé, eftir að hafa neyðst til að skipta Pau Cubarsí inn fyrir meiddan Ronald Araújo í fyrri hálfleiknum. López átti heldur betur eftir að hafa áhrif á leikinn því hann tók forystuna fyrir Barca tæpri mínútu eftir innkomu sína af bekknum, með skalla eftir laglega fyrirgjöf frá Pedri.
Níu mínútum síðar tvöfaldaði Raphinha forystuna, skömmu eftir að heimamenn í liði Sevilla vildu fá dæmda vítaspyrnu á hinum endanum. Raphinha skoraði eftir glæsilegt einstaklingsframtak þar sem hann fór framhjá tveimur andstæðingum áður en hann skoraði með hnitmiðuðu skoti utan vítateigs.
Staðan var orðin 1-3 fyrir Börsunga en skömmu eftir það fékk Fermín López að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu og því voru gestirnir aðeins tíu eftir inni á vellinum gegn ellefu heimamönnum síðasta hálftímann.
Það truflaði Börsunga þó ekki og kláruðu þeir leikinn með marki á lokamínútunum, þegar Eric García skoraði með bringunni eftir aukaspyrnu frá Raphinha.
Barcelona átti þrjár marktilraunir í síðari hálfleik og skoraði úr þeim öllum.
Þetta var þriðji sigurinn í röð hjá Barca og er stórveldið í þriðja sæti spænsku deildarinnar, með 48 stig eftir 23 umferðir. Lærlingar Flick eru aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Real Madrid.
Athugasemdir