Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
   þri 09. júlí 2024 20:44
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Víkingar fóru illa að ráði sínu
Jón Guðni átti skalla í stöng í fyrri hálfleiknum
Jón Guðni átti skalla í stöng í fyrri hálfleiknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 0 - 0 Shamrock Rovers
Rautt spjald: Darragh Nugent, Shamrock Rovers ('80) Lestu um leikinn

Víkingur R. og Shamrock Rovers gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna í 1. umferð í forkeppni fyrir Meistaradeild Evrópu í Víkinni í kvöld.

Víkingar voru sterkari aðilinn í leiknum og fengu hættulegri færi en boltinn vildi ekki inn.

Jón Guðni Fjóluson átti skalla í stöng eftir hornspyrnu á 10. mínútu og þá náði Erlingur Agnarsson frákastinu en setti það líka í stöng. Tréverkið eitthvað að þvælast fyrir.

Þegar rúmur hálftími var liðinn af Nikolaj Hansen tekinn niður í teignum en ekkert dæmt. Virtist vera eitthvað til í þessu broti en norski dómarinn Sigurd Kringstad sá ekkert athugavert við það.

Víkingar fengu haug af hornspyrnum í leiknum en náðu ekki að nýta eina.

Heimamenn fengu næstum því mark í bakið á 73. mínútu er þeir keyrðu upp völlinn. Johnny Kenny hljóp Oliver Ekroth af sér en setti boltann framhjá markinu.

Tíu mínútum fyrir leikslok var Darragh Nugent vísað af velli fyrir leikaraskap, en þetta var hans seinna gula spjald.

Undir lok leiks fengu Írarnir dauðafæri til að vinna leikinn er Ekroth átti slaka sendingu til baka. Kenny fékk boltann og var kominn á móti Ingvari Jónssyni, en lyfti boltanum yfir markið.

Danijel Dejan Djuric átti skot rétt framhjá úr aukaspyrnu á lokamínútunum. Markið kom ekki og markalaust jafntefli því niðurstað í Víkinni.

Gæti reynst dýrkeypt fyrir Víkinga að hafa ekki nýtt eina af fjölmörgum hornspyrnum liðsins í leiknum.

Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Shamrock Rovers í Dýflinni í næstu viku.
Athugasemdir
banner