banner
   þri 09. ágúst 2022 19:36
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: KR á botninum - Afturelding vann á Akureyri
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Afturelding
Mynd: Hrefna Morthens

Tveimur fyrstu leikjum dagsins í Bestu deild kvenna er lokið þar sem Afturelding lyfti sér af botni deildarinnar með sigri gegn Þór/KA á meðan KR missti niður forystu og tapaði gegn ÍBV.


Í Vestmannaeyjum var KR betri aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi 0-1 í leikhlé þökk sé Marcella Marie Barberic sem skoraði eftir snögga aukaspyrnu. Varnarmenn ÍBV misstu einbeitinguna í nokkrar sekúndur og var refsað.

KR verðskuldaði að leiða í hálfleik en Eyjakonur tóku stjórn á leiknum í síðari hálfleik og komust í nokkur dauðafæri áður en Hanna Kallmaier jafnaði með stórkostlegu marki eftir frábært einstaklingsframtak. Hanna kom inn frá hægri kanti og þrumaði boltanum í fjærhornið þar sem Cornelia Baldi Sundelius kom engum vörnum við eftir að hafa átt frábæran leik.

Flóðgáttirnar opnuðust við þetta og tóku heimakonur forystuna eftir slæm mistök í vörn KR sem tapaði boltanum á hættulegum stað. Ameera Abdella Hussen lét vaða fyrir utan teig og breytti boltinn um stefnu þegar hann hafði viðkomu í Rebekku Sverrisdóttur og endaði í netinu. Óheppilegt fyrir Rebekku og KR-inga sem reyndu þó að jafna leikinn.

Tilraunir KR til að jafna báru engan árangur og innsiglaði Þórhildur Ólafsdóttir þess í stað sigurinn með flottu einstaklingsframtaki þar sem hún vann boltann á miðjunni og keyrði sjálf í gegn. Lokatölur 3-1 fyrir ÍBV og annar leikurinn í röð sem KR missir niður forystu og tapar.

ÍBV er í fjórða sæti með 21 stig eftir 12 umferðir en KR er í neðsta sæti, með sjö stig - þremur stigum frá Þór/KA í öruggu sæti.

Lestu um leikinn

ÍBV 3 - 1 KR
0-1 Marcella Marie Barberic ('12)
1-1 Hanna Kallmaier ('76)
2-1 Rebekka Sverrisdóttir ('83, sjálfsmark)
3-1 Þórhildur Ólafsdóttir ('91)

Afturelding lyfti sér af botninum með marki frá Ísafold Þórhallsdóttur sem skoraði á fyrstu mínútu eftir slakan varnarleik Akureyringa.

Þór/KA reyndi að svara fyrir sig en tókst ekki að jafna þrátt fyrir mikinn sóknarþunga og pressu.

Þór/KA fékk nokkur góð færi í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var rólegri og tókst heimakonum ekki að gera jöfnunarmark. Lokatölur urðu því 0-1 og er Afturelding aðeins einu stigi frá Þór/KA eftir þennan sigur.

Fallbaráttan:
7. Keflavík 10 stig 11 leikir
8. Þór/KA 10 stig 12 leikir
9. Afturelding 9 stig 12 leikir
10. KR 7 stig 13 leikir

Lestu um leikinn

Þór/KA 0 - 1 Afturelding
0-1 Ísafold Þórhallsdóttir ('1)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner