þri 09. ágúst 2022 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Villarreal og þrjú ítölsk félög vilja fá Lo Celso
Mynd: Getty Images
Villarreal er með augastað á Giovani Lo Celso, miðjumanni Tottenham, eftir vel heppnaða lánsdvöl leikmannsins á Spáni fyrr á þessu ári.

Lo Celso er 26 ára og var fenginn til Tottenham sumarið 2019 frá Real Betis á láni og keyptur í janúar 2020. Hann lék 37 leiki með Tottenham á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu, 28 leiki á því næsta og nítján leiki fyrri hluta síðasta tímabils áður en hann var lánaður til Villarreal.

Lo Celso er argentínskur landsliðsmaður og var hann utan hóps þegar Tottenham mætti Southampton um liðna helgi í fyrsta leiknum á nýju tímabili.

Villarreal er ekki eina félagið sem hefur áhuga á Lo Celso því Fiorentina á Ítalíu hefur einnig áhuga samkvæmt heimildum Sky á Ítalíu.

Fiorentina vill fá hann á láni út tímabilið með möguleika á því að kaup hann í kjölfarið ef hann stenst væntingar. Sagt er frá því að Fiorentina sé tilbúið að greiða tæplega tvær milljónir punda fyrir að fá Lo Celso á láni út tímabilið með möguleika á kaupmöguleika þar sem verðmiðinn yrði sautján milljónir punda.

Samkvæmt sömu heimildum hafa Napoli og Lazio einnig áhuga á argentínska miðjumanninum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner