
Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður Ajax í Hollandi, er á lista yfir leikmenn sem gætu tekið skrefið upp í A-landsliðið á næstunni en Arnar Þór Viðarsson greindi frá þessu á blaðamannafundi í gær.
Kristian er 17 ára gamall en hann gerði góða hluti á fyrsta undirbúningstímabili sínu með aðalliði Ajax í sumar og skoraði meðal annars gegn Leeds. Hann var þá valinn í Meistaradeildarhópinn fyrir þetta tímabil.
Þessi efnilegi leikmaður er að spila með unglinga- og varaliði Ajax í hollensku B-deildinni og var í byrjunarliði U21 árs landsliðsins í báðum leikjunum í þessum glugga.
Íslenska landsliðið er að ganga í gegnum kynslóðaskipti og er Kristian með mikla hæfileika en hann gæti gengið upp í A-landsliðið fyrr en varir.
„Það er svolítið undir honum komið. Ég efast ekki um það. Hann er einn af þessum leikmönnum sem eru á lista hjá okkur, ekki spurning," sagði Arnar Þór í gær.
Athugasemdir