
Ísland tapaði á ansi svekkjandi hátt í Frakklandi í 2. umferð í undankeppni HM í kvöld. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði í blálokin en markið var dæmt af. Andri Lucas var til viðtals eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Frakkland 2 - 1 Ísland
„Ég eiginlega veit það ekki. Þetta gerist svo hratt, mér fannst ekkert á þetta en dómaranum fannst það sem ég skil ekki alveg en það er eins og það er," sagði Andri um markið sem var dæmt af en hann reif aðeins í Ibrahima Konate og var dæmdur brotlegur.
„Hafsentar og framherjar eru alltaf eitthvað að toga, ýta og rífa. Þetta er svo 'soft' ef þetta er eitthvað. Ég á eftir að fara yfir þetta, kannski geri ég það ekki einu sinni svo ég sé ekki að pirra mig ennþá meira á þessu."
Frakkland er eitt besta lið í heimi en Ísland spilaði frábærlega og átti meira skilið.
„Þetta eru blendnar tilfinningar. Við erum ótrúlega svekktir, við hefðum getað unnið þennan leik finnst mér. Það hefði verið hrikalega sterkt að sækja jafntefli líka, við áttum það skilið. En á sama tíma spiluðum við ótrúlega góðan leik á erfiðum útivelli á móti ótrúlega erfiðu liði," sagði Andri Lucas.
Andri Lucas kom Íslandi yfir eftir tuttugu mínútna leik eftir góða pressu frá íslenska liðinu inn í teig Frakka.
„Það var geggjað. Við vorum búnir að segja það fyrir leik að við ætluðum að keyra á þá. Í rauninni höfðum við engu að tapa og við byrjuðum ógeðslega vel. Frábær byrjun en svekkjandi að við þurftum að tapa þessum leik," sagði Andri Lucas.
Athugasemdir