„Þetta eru tveir hörkuleikir og við erum enn í góðum séns," sagði Logi Hrafn Róbertsson, varnarmaður FH og U21 landsliðsins, við Fótbolta.net í morgunsárið.
Framundan eru tveir síðustu leikir U21 í riðlinum í undankeppni Evrópumótsins. Strákarnir mæta Litháen á morgun og þeir geta búið til úrslitaleik gegn Danmörku með sigri þar.
Framundan eru tveir síðustu leikir U21 í riðlinum í undankeppni Evrópumótsins. Strákarnir mæta Litháen á morgun og þeir geta búið til úrslitaleik gegn Danmörku með sigri þar.
Í síðasta verkefni vann liðið sigur á Danmörku og tapaði svo gegn Wales.
„Þetta var eiginlega svart og hvítt. Við vorum mjög góðir á móti Dönum en svo vantaði kraft í okkur á móti Wales. Það var mjög svekkjandi. Við þurfum að vinna úr því sem við höfum í höndunum," segir Logi en það er mikil spenna í riðlinum og strákarnir eru enn með örlögin í sínum höndum.
„Það er geggjað að fá að spila svona stóra leiki og hafa eitthvað undir. Það gefur okkur auka kraft."
„Við munum eftir leiknum úti gegn Litháen. Þar vorum við heppnir að koma heim með þrjú stig. Við vitum að þetta verður erfitt og við þurfum að undirbúa okkur vel."
Stefnir á að fara í atvinnumennsku
Logi, sem er fæddur árið 2004, hefur spilað stórt hlutverk með U21 landsliðinu í þessari undankeppni og leikið vel í miðverðinum. Hann er einnig lykilmaður hjá uppeldisfélagi sínu FH en samningur hans þar er að renna út um áramótin.
„Ég stefni á að fara út í atvinnumennsku en ég ætla að klára þessa síðustu leiki með FH eftir landsliðsverkefnið og sjá svo til hvað gerist," segir Logi.
„Það hafa verið einhverjar þreifingar en ekkert meira en það."
Það hefur verið áhugi hjá félögum hér heima á Loga. Valur gerði tilboð í hann í sumar en því var hafnað. Er möguleiki á að þú farir í annað félag hér á Íslandi?
„Nei, ég sé ekki fyrir mér að spila fyrir annað félag (hér heima) en FH, ekki eins og staðan er núna," sagði Logi.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir