Steven Gerrard er í viðræðum við Rangers um að taka við félaginu í annað sinn eftir hörmulega byrjun á tímabilinu undir stjórn Russell Martin.
08.10.2025 20:14
Gerrard á leið í viðræður við Rangers
Hann er meðal annars í viðræðum við Grétar Rafn Steinsson, fyrrum landsliðsmann í fótbolta, sem starfar fyrir eigendur Rangers. Grétar er sagður bera mestu vigtina í þessum viðræðum.
Grétar Rafn þekkir mikið til í fótboltaheiminum eftir að hafa meðal annars starfað fyrir Everton, Tottenham og KSÍ eftir að fótboltaferlinum hans lauk.
Gerrard stýrði Rangers í þrjú ár frá 2018 til 2021 og gerði frábæra hluti þar. Liðið vann skosku deildina 2020-21 án þess að tapa leik og var Gerrard ráðinn til Aston Villa í kjölfarið.
Dvöl hans hjá Villa varði í tæpt ár og svo stýrði hann Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu í eitt og hálft ár, en hann hefur verið samningslaus síðan í lok janúar.
Breskir fjölmiðlar greina nú frá því að viðræður Gerrard við Rangers séu á góðri leið og er margt sem bendir til þess að hann muni taka aftur við þjálfun liðsins.
Rangers er aðeins búið að vinna einn deildarleik á tímabilinu og er með 8 stig eftir 7 fyrstu umferðirnar, 11 stigum á eftir toppliði Hearts.
Athugasemdir