Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 09. nóvember 2024 21:57
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool með fimm stiga forystu á toppnum
Mohamed Salah fagnar ásamt stuðningsmönnum Liverpool
Mohamed Salah fagnar ásamt stuðningsmönnum Liverpool
Mynd: Getty Images
Darwin Nunez skoraði fyrra markið
Darwin Nunez skoraði fyrra markið
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 0 Aston Villa
1-0 Darwin Nunez ('20 )
2-0 Mohamed Salah ('84 )

Liverpool er með fimm stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa lagt Aston Villa að velli, 2-0, á Anfield í kvöld. Darwin Nunez og Mohamed Salah skoruðu mörk Liverpool.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með. Liðin voru ekki mikið að reyna á markverðina fyrst um sinn en Ollie Watkins og Leon Bailey settu báðir boltann yfir úr ágætis færi, en stuttu eftir það kom fyrsta mark leiksins.

Liverpool keyrði hratt fram í skyndisókn. Virgil van Dijk kom löngum bolta fram á Mohamed Salah sem var sloppinn í gegn. Leon Bailey reif hann niður, en David Coote, dómari leiksins, lét leikinn halda áfram.

Darwin Nunez náði boltanum, hljóp framhjá Emiliano Martínez áður en hann skoraði með góðu skoti.

Aston Villa vildi fá vítaspyrnu tveimur mínútum síðar er Ollie Watkins féll í teignum eftir viðskipti sín við Ibrahima Konate, en ekkert dæmt. Konate ýtti aðeins við Watkins sem gerði heldur mikið úr þessu og kastaði sér í grasið.

Trent Alexander-Arnold einn af bestu mönnum Liverpool fór meiddur af velli á 25. mínútu leiksins og kom Conor Bradley inn í hans stað.

Nunez gat tvöfaldað forystuna á 32. mínútu er hann komst einn í gegn á móti Martínez eftir skyndisókn en setti skotið yfir markið. Algert dauðafæri.

Aston Villa fékk tvö frábær færi eftir hornspyrnu. Amadou Onana átti fyrst skalla sem Caoimhin Kelleher varði frábærlega aftur fyrir endamörk og þá varði hann aftur eftir skalla Diego Carlos.

Kelleher hljóp í skarðið fyrir Alisson sem er á meiðslalistanum og hefur Írinn staðið sína plikt.

Nunez fékk annað frábært færi til að skora snemma í síðari hálfleiknum. Hann var duglegur að finna svæðin í leiknum vantaði upp á nýtinguna eins og oft áður.

VAR skoðaði mögulega vítaspyrnu á Bradley á 58. mínútu. Unai Emery, stjóri Villa, var sannfærður um að hann hafi tosað Pau Torres niður en aftur var ekkert dæmt.

Hættulegasta vopn Liverpool var að keyra fram í skyndisóknir eftir hornspyrnur Villa. Luis Díaz fékk gott færi en Ezri Konsa kom til bjargar á síðustu stundu.

Liverpool tókst að gera út um leikinn þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Aftur féll Torres í teig Liverpool og í þetta sinn eftir að Ryan Gravenberch fór í hann. Liverpool keyrði fram völlinn en Diego Carlos gerði hræðileg mistök og skallaði boltanum í átt að Salah sem náði að stinga honum framhjá Carlos og komast einn í gegn.

Salah hljóp með boltann inn í teiginn og kláraði af yfirvegun í nærhornið. Mark og stoðsending frá honum í dag.

Lokatölur 2-0 á Anfield. Liverpool er með 28 stig á toppnum, fimm stigum meira en Manchester City eftir ellefu umferðir en Aston Villa í 8. sæti með 18 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner