Arsenal og Tottenham hafa áhuga á Kean - Man Utd sýndi Fermín López áhuga - Jota orðaður við Arsenal
   mán 10. febrúar 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ramos í Mexíkó: Ég er ekki hérna sem túristi
Mynd: CF Monterrey
Spænska goðsögnin Sergio Ramos gerði eins árs samning við mexíkóska stórveldið Monterrey á dögunum.

Ramos verður 39 ára gamall í mars og vill láta til sín taka í mexíkóska boltanum. Hann er sagður vera sérstaklega spenntur fyrir hugmyndinni um að spila með Monterrey á HM félagsliða komandi sumar.

„Ég er ekki orðinn þreyttur á því að sigra en ég kom ekki hingað til að tala um það sem ég hef afrekað á ferlinum. Ég hef aldrei komið hingað áður og ég vil skilja eitthvað eftir mig. Ég er ekki túristi hérna, ég er hérna til að reyna að vinna nýja titla," sagði Ramos á fréttamannafundi.

„Þetta er frábært félag sem hefur kjörin tækifæri til að stækka og ég trúi því að framtíðin sé gríðarlega björt í Monterrey."

Ramos hefur ekki spilað keppnisleik í fótbolta síðan hann var hjá Sevilla á síðustu leiktíð. Hann var byrjunarliðsmaður hjá Sevilla þrátt fyrir háan aldur og þar áður var hann byrjunarliðsmaður hjá franska stórveldinu PSG, eftir að hafa gert garðinn frægan með Real Madrid.

„Þessi ákvörðun að koma hingað eftir svona langan feril sýnir að ég er ennþá hungraður í titla. Ég mun gera allt í mínu valdi til að sigra með Monterrey."

Ramos hefur unnið alla mögulega titla hingað til á ferlinum, að undanskildri Evrópudeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner