banner
   þri 10. mars 2020 11:13
Elvar Geir Magnússon
COVID-19 og íslenski boltinn - Hvað gerist næst?
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er einnig starfsmaður KSÍ.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er einnig starfsmaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður Stjörnunnar, er í sóttkví.
Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður Stjörnunnar, er í sóttkví.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Íþróttahreyfingin á Íslandi fundaði með sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni í gær vegna kórónaveirunnar.

Þó að búið sé að lýsa yfir neyðarstigi á Íslandi þá hefur ekki verið gripið til þess úrræðis að banna samkomur. Ekki er lagt til að fresta eða hætta við íþróttaviðburði miðað við stöðuna eins og hún er í dag.

En ástandið er fljótt að breytast og ljóst að kórónaveiran getur haft mikil áhrif á íslenska boltann.

Ísland - Rúmenía á Laugardalsvelli
Uppselt er á leikinn en möguleiki er að þegar að honum kemur, 26. mars, verði komið samkombann og það verði leikið fyrr luktum dyrum. Margir telja það líklega niðurstöðu í dag. Ómögulegt er að segja hvernig málin munu þróast.

Í Rúmeníu hefur verið gripið til aðgerða vegna veirunnar og öllum skólum verið lokað. Þess má geta að níu landsliðsmenn Rúmeníu (samkvæmt síðasta hóp þeirra) spila í landinu, tveir spila á Ítalíu.

Landsliðsmenn í sóttkví
KSÍ hafði vonast til þess að fá Birki Bjarnason og Emil Hallfreðsson, sem spila á Ítalíu, til landsins í dag. Þeir þurfa að fara í fjórtán daga sóttkví áður en að leiknum kemur. Ekkert verður spilað í ítalska boltanum til 3. apríl að minnsta kosti.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Fótbolta.net í dag að ekkert nýtt væri að frétta af Birki og Emil en um leið og staða þeirra yrði ljós þá yrði það tilkynnt.

Kvennalandsliðið
Kvennalandsliðið á að leika útileiki gegn Ungverjalandi og Slóvakíu í næsta mánuði. Slóvakía hefur sett á bann á íþróttaviðburðum í landinu en það er sett á í tvær vikur, til að byrja með allavega. Óvissuástand ríkir kringum þetta verkefni.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sóknarmaður íslenska liðsins, spilar á Ítalíu.

U19 landslið karla
U19 landsliðið átti að leika í milliriðli á Ítalíu í lok mánaðarins. KSÍ bíður eftir ákvörðun frá UEFA um riðilinn en óhætt er allavega að fullyrða að hann verður ekki leikinn á Ítalíu.

Æfingaferðir íslenskra félaga
Mörg íslensk lið eru á leið til Spánar, kvennalið Stjörnunnar er farið út og karlalið ÍA fer í þessari viku. Norsk lið hafa hætt við æfingaferðir en íslensk félagslið virðast ætla að halda sínu striki þrátt fyrir óvissuástand.

Íslandsmótið
Ef staðan versnar getur það haft margvísleg áhrif á Íslandsmótið. Þegar eru nokkrir íslenskir leikmenn farnir að missa út undirbúningasleiki og æfingar þar sem þeir hafa þurft að fara í sóttkví. Leikmenn úr Stjörnunni, Þór og Þór/KA hafa lent í því. Þetta er ástand sem mögulega mun fylgja inn í Íslandsmótið. Í Danmörku og Færeyjum hafa leikir verið spilaðir fyrir luktum dyrum að undanförnu.

Barnamót
Ákveðið var að fresta Nettómótinu í körfubolta um síðustu helgi en Goðamót Þórs í fótbolta, fyrir 6. flokk karla, mun fara fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þór en ákvörðun var tekin eftir samráðsfundinn sem talað er um í upphafi fréttarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner