Þorlákur Breki Baxter er nítján ára sóknarmaður sem gekk í raðir Stjörnunnar í upphafi mánaðar. Breki er unglingalandsliðsmaður sem uppalinn er hjá Hetti en hefur síðustu ár verið á Selfossi. Hann samdi við ítalska félagið Lecce síðasta haust en fékk sig lausan þaðan og er nú mættur í Stjörnuna.
Fótbolti.net ræddi við hann um veturinn og skiptin í Stjörnuna. Byrjað var að ræða um aðdragandann að skiptunum til Lecce.
Fótbolti.net ræddi við hann um veturinn og skiptin í Stjörnuna. Byrjað var að ræða um aðdragandann að skiptunum til Lecce.
„Ég er bara í skólanum, þá hringir umboðskallinn í mig og segir að það sé lið á Ítalíu sem væri til í að fá mig. Samdægurs er flug til Ítalíu með mömmu, skrifað undir á flugvellinum og er mættur til Ítalíu. Þetta gerist bara á einum degi, hringt um morguninn og ég kominn til Ítalíu um kvöldið. Nei, það var ekkert hik, þetta var dálítið 'fokk it', tökum sénsinn og sjáum hvað gerist."
Hvað vissir þú um Lecce þegar þú skrifaðir undir samninginn?
„Ekki mikið, við gúggluðum borgina og Óli (Ólafur Garðarsson umboðsmaður) var búinn að segja mér smá frá þessu og hverjir væru að vinna fyrir klúbbinn og hvað ég væri að labba inn í."
Erfiðir mánuðir hjá Lecce
Breki vildi upphaflega ekki ræða mikið um mánuðina hjá Lecce en sagði þó eitthvað.
„Ég ætla ekkert mikið út í það, mánuðirnir voru mjög 'tough' og mikið kom upp á, mikið bakvið tjöldin sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Þetta persónulega gekk ekki hjá mér, því miður, þannig ég er kominn aftur heim."
Er eitthvað sem þú hefðir getað gert öðruvísi?
„Já, að sjálfsögðu. Það var erfitt að aðlagast menningunni og fólkinu í suðrinu. Ég hefði getað kynnst menninguna meira og verið fljótari að læra tungumálið til að skilja fólkið betur. En annars lagði ég mig fram."
„Þetta er geðveik reynsla fyrir hausinn, það er það sem ég tek út úr þessu og ég tapaði alls ekki á þessu. Þetta var mjög 'tough' umhverfi, dálítið verið að negla á þér á hverjum degi."
Bað um að fara á lán og þá súrnuðu hlutirnir
Hvenær vissir þú að Lecce ævintýrið væri búið?
„Ég var búinn að biðja um að fá að fara á lán en þeir tóku ekkert alltof vel í það. Síðan sama dag og ég á flug heim þá fæ ég þau skilaboð að ég geti bara tekið töskuna með mér. Ég var alveg tilbúinn í það, kom til Íslands og við reyndum að vera í samskiptum við Lecce. Ég varð bara eftir á Íslandi og veit bara um jólin að ég þarf ekki að fara aftur út."
Varstu að fá eitthvað að spila hjá Primavera liði Lecce?
„Þetta byrjar þannig að ég fer í landsliðsverkefni U19, ég togna þar illa á ökklanum. Lecce vill fá mig fyrr út og ég fylgdi því, ekkert mál. Þeir voru að reyna neyða mig í að æfa og spila mínútur þrátt fyrir að ég væri meiddur - tognaður. Sambandið milli mín og þjálfarans versnaði og það verður dálítill "fightingur". Svo bið ég um lán, þá er mér bara hent út úr myndinni og þá hefst dálítið stríð." Alls kom hann við sögu í fimm leikjum með Lecce á tíma sínum á Ítalíu.
Breki æfði samkvæmt heimildum Fótbolta.net með FH, Víkingi, Vestra, Selfossi og Aftureldingu áður en hann samdi svo við Stjörnuna. „Eftir að það kom í fréttirnar að ég væri laus þá fór síminn að hringja og ég fór að æfa með mörgum liðum."
Jökull og plönin heilluðu
Var Stjarnan mest heillandi af því sem var í boði?
„Já, ég er sáttur með að velja Stjörnuna, skemmtilegt verkefni og Jökull (Elísabetarson þjálfari) er toppmaður. Mér leist vel á æfingarnar, leist vel á hópinn og plönin þeirra. Jökull tók mig á fund og talaði mikið um 'power'. Þeir eru með sprettæfingar sem er klárlega eitthvað sem ég þarf að vinna í. Það heillaði mig mikið og hvernig fótbolta liðið vill spila. Jökull náði að heilla mig með því hvernig hann lagði upp hlutina."
„Standið er fínt en ég er ekki í góðu leikformi, missti af undirbúningstímabilinu þannig séð og er bara búinn að spila einn hálfleik. Ég þarf að treysta Jökli með leikformið, koma mér hægt og rólega inn í hlutina. Vonandi get ég komist á völlinn eins fljótt og hægt er."
„Það er erfitt að slá Emil (Atlason) út, hann er besti senterinn í deildinni. Ég ætla vinna mig hægt og rólega inn í hlutina og við sjáum til hvað ég fæ mörg tækifæri í sumar. Ég treysti Jökli fyrir því."
Voru vonbrigði að vera ekki í hópnum gegn Víkingi?
„Já og nei. Ég fæ leikheimild bara seint á föstudegi og hópurinn var tilkynntur um morguninn. Ég skil það mjög vel, ég er að vinna mig inn í hlutina, bara búinn að æfa í mjög stuttan tíma með Stjörnunni."
Frábær reynsla hjá Go Ahead
Áður en Breki gekk í raðir Stjörnunnar fór hann á reynslu til hollenska félagsins Go Ahead Eagles.
„Ég fór í viku til Go Ahaed fyrir tveimur vikum síðan. Willum (Þór Willumsson) var ekki þarna þar sem hann var með A-landsliðinu. Þetta var geðveik reynsla, frábær klúbbur og við erum í samskiptum við þá, þeir vita af mér og ég veit af þeim. Stjarnan er það sem verður í sumar."
„Markmiðið í sumar er að spila eins margar mínútur og ég get, ég get spilað margar stöður og ég vil vinna mig inn í hlutina," sagði Breki að lokum.
Viðtalið má sjá í spilaranum efst. Stjarnan mætir KR í 2. umferð Bestu deildarinnar og verður áhugavert að sjá hvort Breki verði í hópnum.
Athugasemdir