

Anna Björk Kristjánsdóttir, varnarmaður Stjörnunnar, er nokkuð sátt með að hafa dregist gegn 1. deildarliði Þróttar í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins, en hún býst þó alls ekki við auðveldum leik.
„Þetta eru alltaf hörkuleikir, sama hvaða deild þær eru í, það er bara spennandi að fá nýtt lið,“ sagði Anna Björk við Fótbolta.net eftir að dregið var.
Stjarnan vann 3-0 sigur gegn Víkingi Ólafsvík í 16-liða úrslitunum á dögunum og var Anna Björk ánægð með þann leik.
„Það var fínn leikur, það var hörkuleikur og þær gáfu okkur góða mótspyrnu, en við stóðum okkur ágætlega og reyndum að nýta tækifærið til að bæta það sem þurfti að bæta og gefa nýjum leikmönnum séns á að spila, við vorum bara sáttar,“ sagði Anna Björk, sem líkt og áður kom fram tekur sigri gegn Þrótti alls ekki sem gefnum hlut.
„Það er sama rullann, þetta er bikarinn og það getur alltaf allt gerst. Þú vinnur aldrei leiki fyrirfram, við þurfum alltaf að mæta í leikina og gera okkar besta. Þetta verður bara hörkulið, ég þekki Jónu vel og hún kemur með einhverja góða taktík gegn okkur.“
Anna Björk er uppalinn KR-ingur og viðurkennir að hún hefði verið til í að fara í Vesturbæinn og mæta KR.
„Ég hefði verið til í að fara í Vesturbæinn, ég viðurkenni það. Fá kannski útileik á KR vellinum, það er alltaf gaman að spila þar. Það er alltaf gott að kíkja þangað,“ sagði Anna að lokum.
Athugasemdir