Ítalíumeistarar Napoli ætla að taka lokaákvörðun um úrúgvæska framherjann Darwin Núnez eftir söluna á Victor Osimhen, sem virðist vera á leið til Galatasaray fyrir 75 milljónir evra.
Þegar hún er frágengin getur Napoli skoðað fjárhagsstöðu sína betur og tekið ákvörðun um Núnez, eftir að Liverpool hafnaði 55 milljónum evra fyrir leikmanninn. Talið er að Englandsmeistararnir vilji fá 70 milljónir í sinn hlut.
Napoli er þó að skoða marga aðra leikmenn og gæti keypt nokkra þeirra í staðinn fyrir Núnez.
Ademola Lookman hjá Atalanta er ofarlega á blaði, en hann er einnig eftirsóttur af félögum úr ensku úrvalsdeildinni. Með kaupum á honum gæti Napoli átt meiri pening eftir til að tryggja sér einnig Lorenzo Lucca framherja Udinese eða Dan Ndoye kantmann Bologna.
Talið er að Napoli geti keypt Lookman fyrir um 55 milljónir evra, sem er sama upphæð og félagið bauð Liverpool fyrir Núnez.
Núnez er 26 ára gamall og kom að 14 mörkum í 47 leikjum með Liverpool á síðustu leiktíð.
Athugasemdir