þri 10. nóvember 2020 14:00
Elvar Geir Magnússon
Sancho fær gagnrýni í þýskum fjölmiðlum - Talað um krísu
Jadon Sancho við rútu Dortmund.
Jadon Sancho við rútu Dortmund.
Mynd: Getty Images
Jadon Sancho, leikmaður Borussia Dortmund, hefur ekki staðið undir væntingum á þessu tímabili og fengið ansi mikla gagnrýni frá þýskum fjölmiðlum.

Þýska blaðið Bild talar um krísu en Sancho hefur ekki verið á sama flugi og hann var á síðasta tímabil. Umræða hefur verið um hvort vangaveltur um framtíð hans og áhuga Manchester United hafi haft þessi áhrif.

Sancho náði sér ekki á strik í stórleiknum gegn Bayern München um síðustu helgi og telja þýskir sparkspekingar að frammistaða hans sé áhyggjuefni.

Sancho hefur ekki skorað í Bundesligunni í síðustu ellefu leikjum. Hann hefur hinsvegar átt þrjár stoðsendingar í fyrstu sex umferðunum á þessu tímabili.

Michael Zorc, yfirmaður fótboltamála hjá Dortmund, segist þó ekki hafa áhyggjur.

„Jadon hefur alltaf sýnt stöðugleika hjá okkur. Hann er bara 20 ára og ég hef ekki áhyggjur þó hann hafi ekki alveg náð að sýna sínar bestu hliðar," segir Zorc.

Mælingar sýna að Sancho er hægari í hlaupum en á síðasta tímabili og Bild gefur honum 3,7 af 10 í einkunn fyrir byrjun sína á tímabilinu.

United reyndi að fá Sancho fyrir tímabilið en tilraunir Ed Woodward mistókust. Dortmund ku hafa viljað fá 108 milljónir punda fyrir leikmanninn en samkvæmt fréttum var hæsta tilboðið sem barst 92 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner