Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 11. mars 2014 15:00
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Samþætting menntunar og fótbolta - England vs Ísland
Sam Tillen
Sam Tillen
Sam Tillen.
Sam Tillen.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Úr leik í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Kristján Hauksson fyrrum fyrirliði Fram.
Kristján Hauksson fyrrum fyrirliði Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Jón Ragnar Jónsson.
Jón Ragnar Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Bill Shankly sagði eitt sinn “Sumt fólk heldur að fótbolti sé upp á líf og dauða, en ég fullvissa ykkur um að það er mun alvarlegra en það”. En er það svo?

Líf mitt hefur alltaf snúist um fótbolta. Ég hef alltaf reynt að gera allt sem ég mögulega get til þess að verða eins góður leikmaður og mögulegt er. Síðan ég man eftir mér fór ég snemma að sofa fyrir leiki, reyndi að borða og drekka rétt. Ég hef aldrei drukkið áfengi, þar sem ég taldi að það myndi hafa neikvæð áhrif á líkama minn sem íþróttamaður. Það var mitt val og ég sé ekki eftir því. Ég hata enn þá að tapa. Ég missi ennþá stjórn á skapi mínu, eitthvað sem hefur alltaf búið í mér. Ég á enn erfitt með að sofa eftir tapleiki og mér líður mjög illa þegar ég hef gert dýrkeypt mistök. Ég hef aldrei getað slökkt á “on” rofanum og öfunda þá leikmenn sem geta aðgreint fótboltann frá öðrum þáttum lífs síns.

Síðan ég kom til Íslands hefur hugmyndin um mig sem fótboltamann og manneskju breyst. Ég hef komist að því að fólk sem ég spila með hér á landi er mun víðsýnna en gengur og gerist í Englandi. Leikmennirnir sem ég spila með hér hafa önnur áhugamál, eru almennt vel menntaðir, þeir eiga sér líf fyrir utan fótboltann, þrátt fyrir að taka fótboltann mjög alvarlega. Þeir hata að tapa, það er mikið keppnisskap á æfingu, og þeir æfa aukalega þrátt fyrir að njóta velgengni í öðru en fótboltanum.

Mér gekk vel í skóla. En það var erfitt að samhæfa skólann og fótboltann eftir að ég byrjaði í unglingaliði Chelsea 16 ára gamall. Ég tók A level áfanga í stjórnmálafræði og ætlaði að leggja stund á íþróttafræði í Roehampton sem PFA(Professional footballers association) bauð uppá á mínu öðru ári í Brentford. En eins og einkennandi er fyrir fótboltamenn í Englandi, varð ekkert úr íþróttafræðinni þar sem að of fáir nemendur sóttu um. Um mitt næsta tímabil var ég samningslaus og á leiðinni til Íslands. Bróðir minn endaði á að fara í íþróttafræðina árið á eftir og með honum voru 12 aðrir. Enginn þeirra var að spila fótbolta á þeim tíma, nema einn og sá hætti í náminu eftir einhvern tíma. Hann er án félags nuna.

Meðallengd ferils hjá leikmanni sem fer í unglingalið á Englandi 16 ára, er 5 ár. Það þýðir að flestir leikmenn eru hættir að spila við 21. aldursár. Maður er syndandi á móti straumnum en samt undirbúa unglingadeildirnar leikmenn ekki undir lífið fyrir utan fótboltann. Fyrir suma unga stráka er um allt eða ekkert að ræða. Þeir hafa fallið á samræmdum prófum, einblínt algjörlega á að slá í gegn en svo þegar þeir verða 19 – 21 árs er þeim kastað fyrir róða.

Hér á Íslandi eiga allir ungir fótboltamenn þann draum að verða atvinnumenn í fótbolta, en þar sem að liðin hér eru ekki atvinnumannalið, þá færðu mun víðsýnna fólk. Flestir leikmenn klára menntaskóla, þeir eru í háskóla eða hafa lokið háskólagráðu og þeir hafa ekki þessa einhæfu sjón sem flestir leikmenn sem ég spilaði með í Englandi hafa. Ungu leikmennirnir sem eru í menntaskóla eða háskóla æfa jafn mikið og atvinnumenn en eru þrátt fyrir það að undirbúa sig undir líf frá leiknum sem þeir elska. Ef þeir enda á að fara út í atvinnumennsku, eru þeir mun betur staddir en þeir þúsund leikmanna í Englandi sem eru látnir lausir undan samning , sem eru á sama aldri. Ef þeir enda á því að spila á Íslandi, geta þeir lifað mjög vel. Þeir geta verið toppleikmenn á Íslandi og haft góða vinnu og þénað jafnvel meira en sumir leikmenn í sumum atvinnumannadeildum. Standardinn hér er góður og það er möguleiki á að spila í Evrópukeppnum.

Tökum sem dæmi fjölskyldu kærustu minnar. Mágur hennar er tannlæknir sem hefur unnið 5 Íslandsmeistaratitla og bróðir hennar er með verkfræðigráðu, og er nú á 4.ári í læknisfræði. Meðfram því hefur hann verið fyrirliði Fram og spilað í Pepsi-deildinni síðustu 10 ár eða svo Það er ekki slæmt! Með því að spila hér hef ég tækifæri til þess að lifa, spila fótbolta, vinna og læra nýtt tungumál og öðlast dýrmæta lífsreynslu, en á pappírum á ég langt í land. Ég mun hefja nám í Opna háskólanum í september, eða bíða þangað til ég hætti að spila og tek þá PFA gráðu í Englandi. Ég labba ekki inn í góða vinnu þegar fótboltaferli mínum lýkur líkt og þeirra mikla vinna hefur gert þeim kleift. En með því að nota tímann vel, er engin ástæða fyrir því að gera ekkert annað en bara fótbolta. Hugsunarhátturinn í Englandi er sá að þú ert fótboltamaður og ekkert annað. Ég hef séð það, að það er nægur tími, ef honum er eytt á réttan hátt, til þess að gera aðra hluti.

Eftir því sem ég best veit æfa lið hér á Íslandi jafn mikið og atvinnumannalið í Englandi gera. Part-time fótboltamenn í Englandi æfa tvisvar í viku, oftast þriðjudaga og fimmtudaga, og spila síðan leiki. Hér æfum við a.m.k. 5 sinnum í viku, oft meira og svo æfa margir aukalega. Eini verulegi munurinn er fjárhagslega hliðin og að þú getur ekki gefið allan þinn tíma í að hvíla þig og því alltaf verið 100% á æfingu. En þó er þeim tíma ekki alltaf eytt vel, hjá þeim sem hafa hann. Eftir morgunæfingu, hafa leikmenn í atvinnumannaliðum allan daginn til þess að eyða tímanum eins og þeir vilja, og er honum sjaldnast eytt í eitthvað uppbyggilegt. Að sjálfsögðu er hvíld mikilvæg en ég þekki leikmenn sem eyddu öllum sínum frítíma í happahúsum að veðja eða að spila tölvuleiki. Mér þykir það aðdáunarvert að horfa á hægri helming vallarins og sjá Jón Jónsson taka overlap eins og enginn sé morgundagurinn, með plötusamning og starf ritstjóra Monitors í rassvasanum.

Mér var sagt þegar ég var ungur að maður öðlist 75% tæknilegrar getu fyrir 14 ára aldur. Ef það er satt þá eiga Íslendingar mjög góða mögulega á að bæta sig og auka magnaða framleiðslu sína á leikmönnum. Með nálægð æfingasvæða, reglulegum æfingum og bættri aðstöðu eru Íslendingar að framleiða teknískari leikmenn. En með því að gera það ásamt því að leggja áherslu á menntun, er ekki aðeins verið að skapa góða fótboltamenn heldur fólk með mjög bjarta framtíð ef fótboltinn gengur ekki upp hjá þeim. Og ef þeir fara út í atvinnumennsku, verður auðveldara fyrir þá að aðlagast. Það er eitthvað sem Íslendingar ættu að vera stoltir af. Fótboltinn endist ekki að eilífu. Þó hann sé okkur öllum mikilvægur hef ég lært það að aðrir hlutir eru mun mikilvægari. Menntun er eitt af þeim, fjölskylda, góð heilsa, og listinn heldur áfram. Fótbolti er hluti af lífinu en ekki það mikilvægasta.
Athugasemdir
banner