Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 11. mars 2021 11:02
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Finnur Tom Palma: Vildi að ég væri meira eins og Ísak
Frá leikmannakynningunni
Frá leikmannakynningunni
Mynd: Norrköping
Ísak og Oliver
Ísak og Oliver
Mynd: OS
Finnur Tómas Pálmason gekk í raðir IFK Norrköping í janúar frá uppeldisfélaginu KR. Finnur er tvítugur miðvörður og var hann til viðtals í Framåt Kamrater hlaðvarpinu sem fjallar um sænska félagið.

Finnur ræðir um fyrstu tvo mánuðina hjá félaginu og ber félaginu, leikmönnum, þjálfurum og bænum vel söguna. Hann hrósar þá aðstöðunni sem félagið hefur. Hjá félaginu eru aðrir fjórir Íslendingar, þeir Ísak Bergmann Jóhannesson, Oliver Stefánsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason eru leikmenn og Bjarni Guðjónsson, faðir Jóhannesar, er þjálfari U19 liðsins.

Sjá einnig:
Finnur Tómas: Vil að fólk muni eftir nafni mínu (13. janúar)

Erfitt er að bera nafnið Finnur fram þegar þú talar ekki íslensku og því kalla samherjar hans hann einfaldlega nafninu Tom. Stuðningsmenn eru þá byrjaðir að kalla hann Palma. Finnur hefur komið við sögu í tveimur leikjum með Norrköping til þessa.

Finnur kemur inn á það hann hafi spilað gegn Ísaki og Oliver á sínum yngri árum á Íslandi. Þáttarstjórnandi lýsti Ísaki sem atvinnumanni fram í fingurgóma, sem borðar aldrei óhollt og nýtir öll tækifæri til þess að æfa. Þáttarstjórnandi spurði Finn hvort hann væri eins.

„Nei, ég er aðeins rólegri í þessum efnum en ég vildi að ég meira væri eins og Ísak. Hann er mikill atvinnumaður, ég horfi mikið til hans og þó hann sé tveimur árum yngri en ég þá get ég lært mikið af honum," sagði Finnur.

„Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að hafa alla Íslendingana hér, ég er ekki með kærustu og fjölskyldan er ekki hér með mér. Það er gott að hafa Oliver, Ísak og Jóhannes. Einnig að hafa Bjarna og fjölskylduna, það er frábært að hafa þau og ég held að þau munu spila mikilvægt hlutverk í því að ég nái að spila vel hér. Þú ert á æfingasvæðinu á morgnanna og eftir hádegi en á kvöldin, ef ég væri ekki með þau hér, þá væri ég bara einn í PlayStation eða gera eitthvað annað. Það er mjög gott að geta talað móðurmálið og verið með fólk sem þú þekkir í kringum þig."

Finnur kemur einnig inn á sinn fótboltabakgrunn, hann kemur ekki úr fótboltafjölskyldu eins og Skagamennirnir í liðinu og segir kjúkling með pestó vera máltíðina sem hann eldi sér oftast, eldamennskan sé þó til skoðunar.

Hann er einn þeirra sem kemur til greina í U21 árs landsliðið seinna í þessum mánuði.

Viðtalið má hlusta á hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner