Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 11. mars 2023 19:58
Brynjar Ingi Erluson
Þýskaland: Jafnt í grannaslag - Schalke taplaust í síðustu sjö leikjum
Kenan Karaman jafnaði metin þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum
Kenan Karaman jafnaði metin þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum
Mynd: Getty Images
Schalke 04 2 - 2 Borussia D.
0-1 Nico Schlotterbeck ('38 )
1-1 Marius Bulter ('50 )
1-2 Raphael Guerreiro ('60 )
2-2 Kenan Karaman ('79 )

Schalke er án taps í síðustu sjö leikjum sínum eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Borussia Dortmund í grannaslag í þýsku deildinni í dag.

Nico Schlotterbeck kom Dortmund yfir á 38. mínútu með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teiginn eftir sendingu frá Raphael Guerreiro en Schalke svaraði strax í byrjun síðari hálfleiks.

Michael Frey fékk boltann hægra megin við teiginn og sá að Marius Bulter var kominn í hlaupið á fjærstönginni. Frey kom með gullfallega sendingu þvert fyrir markið og var eftirleikurinn auðveldur.

Tíu mínútum síðar kom Guerreiro liði Dortmund aftur í forystu eftir að Emre Can fann hann í opnu svæði fyrir framan markið. Guerreiro tók við boltanum og afgreiddi hann í netið.

Schalke skemmdi teiti Dortmund-manna því þegar ellefu mínútur voru eftir gerði Kenan Karaman jöfnunarmarkið með föstum skalla úr teignum eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Lokatölur 2-2. Schalke er nú taplaust í síðustu sjö deildarleikjum en situr samt sem áður í 17. sæti með 20 stig. Magnaður árangur eftir áramót hjá liði sem virtist ekki eiga möguleika á að berjast um sæti í deildinni. Dortmund er í öðru sæti með 50 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Bayern. Dortmund hefur ekki tapað deildarleik í síðustu níu leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner