Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
   sun 11. júlí 2021 13:54
Brynjar Ingi Erluson
Höness og Kroos munnhöggvast - „Hann hentar ekki nútímafótbolta"
Toni Kroos er hættur að spila fyrir þýska landsliðið
Toni Kroos er hættur að spila fyrir þýska landsliðið
Mynd: EPA
Uli Höness er umdeildur
Uli Höness er umdeildur
Mynd: Getty Images
Uli Höness, fyrrum forseti Bayern München í Þýskalandi, er greinilega með horn i síðu Toni Kroos en hann hefur mikið rætt um leikmanninn í sumar og segir nú að hann henti ekki nútímafótbolta.

Höness er umdeildur í Þýskalandi og þykir fátt skemmtilegra en að viðra skrautlegar skoðanir sínar.

Hann vann bæði EM og HM með Vestur-Þýskalandi á áttunda áratugnum en eftir ferilinn var hann framkvæmdastjóri Bayern í 30 ár áður en hann gerðist forseti félagsins.

Höness eyddi fimm árum sem forseti áður en hann neyddist til að segja af sér. Hann var dæmdur í fangelsi fyrir alvarleg skattabrot og sat í fangelsinu í rúmlega eitt og hálft ár.

Hann var endurkjörinn forseti nokkrum mánuðum síðar áður en hann sagði starfi sínu lausu fyrir tveimur árum. Höness hefur fylgst vel með fótbolta síðan og sérstaklega þýska landsliðinu en hann var fyrir vonbrigðum með frammistöðu Kroos á EM og hefur hraunað duglega yfir hann síðustu vikur.

„Fyrstu tveir leikirnir í undankeppni HM voru þokkalegir með góða fjögurra manna varnarlínu en svo var breytt í kerfi með þremur varnarmönnum. Það var algerlega óþarfi. Af hverju var það gert? Jú, því Low vildi koma Kroos fyrir í liðinu," sagði Höness við Sport1.

„Ef við hefðum spilað með Kimmich, Goretzka og Müller á miðjunni og með þá Gnabry og Sane á vængjunum og Havertz fremstan þá værum við í allt annarri stöðu í dag. Ég er viss um það."

„Ég er hrifinn af Kroos, hann hefur boðið upp á heimsklassa frammistöður og var frábær fyrir Bayern en hann hentar því miður ekki fyrir nútímafótbolta. Það er búið spil."

„Við erum 1-0 undir gegn Englandi og Kroos var að spila til hliðar endalaust þangað til varnarlínan hjá Englendingum náði að skipuleggja sig. Þeir hefðu átt að segja frá byrjun að Kroos einfaldlega passaði ekki inn í þennan bolta. Við spilum boltanum áfram,"
sagði Höness meðal annars.

Það þarf ekki að deila um ágæti Kroos. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Real Madrid og Bayern München, auk þess sem hann varði heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2014, en hann svaraði fyrir sig og skaut aðeins á Höness.

„Uli Höness er maður með mikla þekkingu á fótbolta (þó svo það hafi ekki verið nóg fyrir RTL). lítið fyrir að gera lítið úr fólki og hefur fundið innri frið líkt og vallarstarfsmaðurinn hans," skrifaði Kroos á Twitter.

Kroos var afar kaldhæðinn í skrifum sínum. Höness var ráðinn sem sérfræðingur hjá þýsku sjónvarpsstöðinni RTL í mars en látinn fara eftir þrjá leiki. Ummæli hans um Jerome Boateng og önnur málefni tengd þýska landsliðinu varð honum að falli.

Þá nefnir Kroos einnig vallarstarfsmanninn en þar vísar hann í deilur Höness við Lothar Matthaus, fyrrum leikmann Bayern og þýska landsliðsins. Höness sagði eftir rifrildi að Matthaus fengi aldrei aftur að starfa fyrir Bayern, ekki einu sinni sem vallarstarfsmaður. Þeir hafa þó grafið öxina síðan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner