„Þetta er virkilega spennandi. Þetta verður erfiður leikur en við erum með sterkt lið," sagði Ari Sigurpálsson, leikmaður U21 landsliðsins, við Fótbolta.net fyrir æfingu í dag. Á morgun spila strákarnir við Tékkland í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2025.
„Við þurfum að halda okkur við gildin okkar, verjast saman sem lið og klára einföldu hlutina. Þá kemur rest."
Strákarnir í U21 landsliðinu hreiðra um sig í kvennaklefanum hjá Víkingi í þessu verkefni.
„Við erum í kvennaklefanum, þær eru þrefaldir meistarar og vonandi hjálpar það eitthvað. Það er rosaleg upprisa í Víkingi sem er geggjað."
Ari meiddist í deildarleik gegn Val á dögunum en hann kveðst ekki klár í að byrja á morgun. „Nei, ég held ekki. Ég held ég sé ekki klár í það. Ég er bara búinn að taka nokkrar æfingar," sagði Ari en hann segist tilbúinn að taka hlutverk í það að koma inn af bekknum.
Ég er ekki stressaður
Það hafa verið sögur af áhuga á Ara erlendis frá. Arminia Bielefeld í Þýskalandi og HamKam sýndu honum áhuga áður en glugginn lokaði.
„Mér fannst tímapunkturinn alls ekki réttur. Ég er búinn að spila lítið og ég hef verið mikið meiddur. Ég er í geggjuðu verkefni í Víkinni. Ég er bara tvítugur. Markmiðið er að fara út en ég get orðið tvöfaldur meistari í næstu viku. Ég vildi ekki sleppa því," sagði Ari.
„Ég er ekki stressaður. Ég veit hvað ég get í fótbolta. Ef ég er heill og fæ að spila þá get ég fengið stórt lið úti."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir























