Heimild: mbl.is
Enn er óvissa hvar Víkingur mun spila heimaleiki sína í Sambandsdeildinni en félagið hefur fengið lengri frest frá UEFA til að fá lausn í málið.
„Það er bara mikil vinna í gangi. Þetta er flókið mál en það er ekkert að frétta. Það er kominn lengri frestur og verið að rýna í ákveðna þætti. Það er kominn aðeins lengri frestur. Hvort að þetta verði í dag eða á morgun þori ég ekki alveg að fara með. Það er að gríðarlega mörgu að hyggja," segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við mbl.is.
Framkvæmdir verða við Laugardalsvöll en UEFA gaf grænt ljós á að Víkingur myndi spila heimaleiki sína í Evrópu á Kópavogsvelli. Það þyrfti þó að bæta flóðlýsingu við völlinn og kostnaður við það yrði gríðarlegur.
Víkingur hefur fengið vilyrði fyrir því að spila heimaleikina í Færeyjum þar sem þjóðarleikvangur þeirra uppfyllir öll skilyrði.
„Það er verið að senda íslenska knattspyrnu úr landi, hún er bara á götunni. Íslenskur klúbbafótbolti er á götunni." sagði Haraldur í viðtali við Fótbolta.net á dögunum.
Athugasemdir