mán 11. október 2021 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Ási fyrir leikinn gegn Real Madrid: Pressa jafnvel meira en PSG
Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson tók við þjálfun kvennaliðs Breiðabliks á dögunum eftir að Vilhjálmur Kári Haraldsson hætti en fyrsta verkefni hans verður gegn Real Madrid í A-riðli Meistaradeildar Evrópu á miðvikudag. Hann ræddi við BlikarTV um leikinn.

Breiðablik tapaði fyrsta leiknum í riðlinum fyrir Paris Saint-Germain á Kópavogsvelli í síðustu viku en Blikar spiluðu afar vel og voru þær óheppnar að ná ekki betri úrslitum.

Næsti leikur er gegn Real Madrid á Alfredo Di Stefano-vellinum í Madríd á miðvikudag en hann hefur skoðað liðið vel.

Real Madrid mun að öllum líkindum spila 3-5-2. Liðið hefur gert það í síðustu tveimur leikjum og náð góðum árangri. Madrídarliðið vann Kharkiv í þessu leikkerfi í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar og þá lagði liðið Eibar í deildinni í gær.

„Hann leggst mjög vel í mig og við höfum skoðað Madrídarliðið svolítið undanfarið. Eftir að hafa lent í öðru sæti í fyrra og slegið Manchester City út í sumar til að komast inn í þennan riðil þá hefur ekkert gengið hjá þeim í deildinni," sagði Ási við BlikarTV.

„Fyrstu fimm umferðirnar ná þær einu jafntefli og töpuðu hinu og þá eru komnar uppi miklar óánægjuraddir hjá þeim og hlutirnir ekki verið að ganga upp hjá þeim en svo fara þær í útileik í síðustu viku á móti Kharkiv og breyta um taktík og áherslum og vinna þann leik 1-0, mikill fögnuður og halda þeim áherslum í gær gegn Eibar og breyta í 3-5-2, sem þær höfðu ekkert verið að vinna með áður, hvorki í fyrra né fyrr á tímabilinu og héldu því í dag og unnu fyrsta leikinn á tímabilinu."

„Þær eru aðeins að koma upp og ná vopnum sínum. Það er fullt af góðum fótboltamönnum þarna, þær færa boltann vel, hreyfanlegar og aggresífar og pressa jafnvel meira en PSG-liðið og við þurfum að vera tilbúnar í það."


Selma Sól Magnúsdóttir hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og var á bekknum gegn PSG en hún ætti að vera klár í slaginn á miðvikudag.

„Selma Sól var meidd í síðasta leik en hún er að koma til. Hún er í keppni við tímann um að komast inn. Það lítur ágætlega út í dag og þá eru allar klárar í slaginn ef allt gengur upp," sagði Ási í lokin.

Hægt er að sjá viðtalið við hann í spilaranum hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner