Davíð Snorri Jónasson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, ræddi við Stöð 2 Sport fyrir landsleik Íslands og Wales í Þjóðadeildinni, en leikurinn fer fram á Laugardalsvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 2 Wales
Andri Lucas Guðjohnsen og Orri Steinn Óskarsson byrja fremstir hjá íslenska liðinu. Hver var hugmyndin þar?
„Við erum yfirleitt búnir að spila með tvo frammi. Andri og Orri byrja í dag. Í 'game-planinu' í byrjun leiks er að reyna að hlaupa svolítið á þá, sáum opnanir þar. Andri og Orri eru góðir í því og síðan reyna að finna balansinn á milli þess að fara of hágt og lágt, þannig við séum ekki að opna of miklar glufur á okkur. Þegar þeir byrja að spila þá er rétt að triggera þegar við getum farið og ráðist á þá og farið hratt upp í kjölfarið. Það er svona pælingin,“ sagði Davíð Snorri, sem er að búast við erfiðum leik.
„Við búumst við að þeir reyna að keyra upp orkuna og vilja halda í boltann. Við höfum rætt við Jóa um þetta og þeir vilja halda í boltann og í rauninni að spila á okkar gildum og fyrir hvað við stöndum. Við ætlum að vera þéttir og á réttum trigger að ráðast á þá og láta þá hafa fyrir hlutum. Það koma tækifæri þar sem við getum haldið í boltann og við erum svo sannarlega með góða fótboltamenn til að gera það.“
Davíð er ánægður með samkeppnina í liðinu og segir hana meiri.
„Ég verð að segja eins og er. Samkeppnin er orðin meiri í þessu liði og betri. Við finnum það með hverri æfingunni og það er okkar tilfinningin að hún sé orðin betri og við ætlum að koma því inn á völlinn í dag. Eiga góða frammistöðu og ná í góð úrslit. Við erum heima og ætlum að gefa fólkinu góða skemmtun í kvöld.“
Þúsund stuðningsmenn Wales verða á leiknum en Davíð hefur engar áhyggjur af því. Tólfan, stuðningsmannasveit Íslands, mun hafa sigur í þeirri baráttu.
„Tólfan græjar þessa þúsund Wales-verja. Hef engar áhyggjur af því,“ sagði Davíð í lokin.
Athugasemdir