Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 12. mars 2023 09:15
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Nú er kominn tími og krafa á árangur“
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
„Við leyfum okkur að dreyma (um að komast á EM) en eigum ekki að hafa raunhæfar væntingar nema þetta lið sýni okkur að það getur unnið eitthvað annað en Liechtenstein. Ég er ekki að vera leiðinlegur, ég er bara að vitna í það sem hefur gerst," segir Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Þar var rætt um landsliðið og möguleika Íslands á að komast á EM í Þýskalandi 2024. Ísland hefur leik í undankeppninni gegn Bosníu og Liechtenstein síðar í þessum mánuði. Auk þess eru Portúgal, Slóvakía og Lúxemborg í riðlinum en tvö efstu liðin komast á EM.

„Að því sögðu er ekki amalegt að fá Aron Einar, Jóa Berg og Alfreð Finnboga aftur inn í fótboltaliðið. Við erum allt í einu með framherja, Alfreð. Sverrir Ingi er að spila hörkuvel í Grikklandi og Hörður Björgvin kominn aftur. Það er allt lagt upp núna."

Einu sigrar Íslands í mótsleikjum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar hafa komið gegn Liechtenstein, en sigrar hafa unnist gegn Venesúela, Færeyjum og San Marínó í vináttulandsleikjum.

„Eins og Vanda sagði; nú er stefnumótunin búin, æfingaglugginn er búinn og Arnar þarf núna árangur. Grjóthart að mæta í stúkuna á Ísafirði og bara 'kallinn minn, nú eru það úrslit'," segir Tómas og vitnar í ávarp Vöndu Sigurgeirsdóttur á ársþingi KSÍ nýlega:

„A landslið karla er búið að vera í ákveðinni endurnýjun og uppbyggingarfasa. Framfarir voru á síðasta ári en núna er kominn tími og krafa á árangur. Þjálfararnir, teymið í kringum liðið og leikmennirnir sjálfir eru örugglega á sama máli," sagði Vanda í ávarpinu.

Í útvarpsþættinum var talað um að allt undir fjórum stigum í komandi landsleikjaglugga væru vonbrigði þar sem ganga mætti að því vísu að við vinnum Liechtenstein.

Leikið verður gegn Bosníu fimmtudaginn 23. mars og svo gegn Liechtenstein þremur dögum síðar.

Hlustaðu á þáttinn í heild í spilaranum hér að neðan
Útvarpsþátturinn - Síðasta ótímabæra og vangaveltur um landsliðið
Athugasemdir
banner
banner
banner