Fyrsta umferð Bestu deildarinnar var stórskemmtileg og umræðupunktarnir eru afskaplega margir. Einhverjir vilja þó helst gleyma fyrstu umferðinni og horfa alfarið fram veginn. Hér eru tíu sem áttu erfitt uppdráttar í fyrsta leik.
Adam Örn Arnarson (Fram) - Átti í stökustu vandræðum með Vuk. Fékk svo dæmda á sig vítaspyrnu eftir að hafa brotið á honum og var tekinn af velli á 65. mínútu. Ekki alveg óskabyrjun hjá nýju félagi.
Anton Ari Einarsson (Breiðablik) - Einn besti markvörður deildarinnar átti vondan dag og gerði dýrkeypt mistök í tveimur af mörkum HK í 4-3 útisigri. Þar á meðal sigurmarki HK-inga í uppbótartíma, skot sem hann átti algjörlega að verja.
Eyþór Wöhler (Breiðablik) - Lenti í vef Köngulóarmannsins og tapaði boltanum á stórhættulegum stað sem gerði það að verkum að HK komst í dauðafæri og skoraði sigurmarkið. Eyþór kom inn í lok leiksins og átti erfiðar mínútur sem hjálpa honum ekki í baráttu um sæti í Blikaliðinu.
Filip Valencic (ÍBV) - Slóveninn sýndi á undirbúningstímabilinu að það er margt spunnið í hann. Hann náði hinsvegar ekki að standa undir væntingum þegar í alvöruna var komið í fyrsta leik. Tók margar kolrangar ákvarðanir þegar ÍBV tapaði gegn Val.
Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan) - Geggjað að fá Hilmar aftur eftir erfið meiðsli. Var ryðgaður í tapi gegn Víkingi og lítið í boltanum.
Ísak Andri Sigurgeirsson (Stjarnan) - Einn efnilegasti leikmaður deildarinnar komst lítt áleiðis gegn Víkingum. Davíð Örn Atlason var með Ísak í vasanum í Garðabænum.
Patrik Johannesen (Breiðablik) - Sá líklegasti til að verða markakóngur fór illa að ráði sínu gegn HK og fór illa með góð færi. Færeyski landsliðsmaðurinn var frábær í Meistarar meistaranna en var með mislagðar fætur í fyrstu umferð.
Pætur Petersen (KA) - Annar Færeyingur á listanum. Klúðraði algjöru dauðafæri gegn KR og fann sig ekki. Algjört skylduskorunarfæri.
Rúnar Páll Sigmundsson (Fylkir) - Rúnar og hans menn fóru illa með fullt af góðum færum í fyrri hálfleik gegn Keflavík. Í seinni hálfleik datt svo allur taktur úr liðinu og tap niðurstaðan eftir að liðið var í forystu.
Athugasemdir