Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
banner
   mið 12. júní 2024 16:00
Elvar Geir Magnússon
Buffon: Fólk er að vanmeta Ítalíu fyrir EM
Buffon sinnti aðdáendum á opinni æfingu ítalska landsliðsins í gær.
Buffon sinnti aðdáendum á opinni æfingu ítalska landsliðsins í gær.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Gianluigi Buffon, fyrrum markvörður ítalska landsliðsins, segir að fólk sé að vanmeta Ítalíu fyrir Evrópumótið í Þýskalandi.

Ítalska liðið kom til Þýskalands á mánudagskvöld og æfði fyrir framan fimm þúsund manns á opinni æfingu í gær.

Buffon er í starfsteymi ítalska liðsins, er einn af aðstoðarmönnum Luciano Spalletti, og spjallaði við fjölmiðla í dag. Ítalía mætir Albaníu á laugardaginn.

„Ég vissi ekki hvernig tilfinning það væri að fara á stórmót í öðru hlutverki en tilfinningin er alveg eins og þegar maður var leikmaður. Það er adrenalín og spenna. Ég vil geta hjálpað og vonandi gerum við góða hluti," segir Buffon.

Ítalía komst ekki á HM í Katar en vann hinsvegar síðasta Evrópumót. Buffon segir að fólk sé að vanmeta ítalska liðið en fáir eru að spá því sigri.

„Þessir strákar búa yfir miklu, það er auðmýkt og vinnusemi í hópnum. Svo erum við með fimm eða sex leikmenn í fremstu röð. Það er allt til staðar til að við getum átt gott mót."

Þá segir Buffon að Ítalía sé í toppmálum í markvarðarstöðunni með Gianluigi Donnarumma, Guglielmo Vicario og Alex Meret. Ítalía gæti reitt sig á marga hæfileikaríka markverði um ókomin ár.

Ítalía er í riðli með Albaníu, Spáni og Króatíu.


Athugasemdir
banner