lau 12. september 2020 20:36
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Áttum að gera betur - Leeds mun eiga gott tímabil
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp gaf kost á sér í viðtal eftir 4-3 sigur Englandsmeistara Liverpool gegn nýliðum Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Þvílíkur leikur, þvílíkir mótherjar. Þetta var knattspyrna uppá sitt besta, frábær skemmtun. Þegar það eru skoruð sjö mörk í einum leik þá er ljóst að einhver gerði mistök," sagði skeggjaður Klopp að leikslokum.

Virgil van Dijk skoraði annað mark Liverpool í leiknum en gerði svo afar slæm mistök sem gerðu Patrick Bamford kleift að jafna. Klopp segir eðlilegt að hollenski landsliðsmaðurinn hafi gert mistök enda hefur þetta verið furðulegt undirbúningstímabil og Þjóðadeildin var í fullu fjöri í vikunni.

„Það er margt sem við getum bætt í varnarleiknum en það er eðlilegt að gera svona mistök í fyrstu umferð nýs tímabils. Leikmenn voru að spila fyrir landsliðin sín í vikunni og það eykur líkurnar á svona mistökum. Við áttum að gera betur en þetta er ekki skrýtið. Andstæðingarnir voru góðir og neyddu okkur til að gera mistök.

„Við áttum að gera betur, við getum gert betur og munum gera betur."


Þrátt fyrir að vera ósáttur með varnarleikinn var Klopp ánægður með sóknarleik sinna manna gegn orkumiklu liði Leeds.

„Ég naut sóknarleiksins hjá okkur gegn vel skipulögðu og ástríðufullu liði eins og Leeds. Við spiluðum virikilega góðan sóknarbolta og hefðum getað skorað meira.

„Leeds mun eiga gott tímabil ef liðinu tekst að halda áfram að spila svona vel út tímabilið. Þeir gerðu það á síðustu leiktíð."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner