Eiginkona Chris Smalling, Sam, lét í sér heyra á Instagram eftir að landsliðshópur Englands var opinberaður en Smalling, sem er leikmaður Roma á Ítalíu, fékk ekki kallið.
Smalling hefur staðið sig mjög vel á tíma sínum í Róm og er hann algjör lykilmaður í vörninni undir stjórn Jose Mourinho.
Smalling hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðan árið 2017 og því voru ekki margir sem spáðu því að hann yrði í hópnum sem Gareth Southgate valdi.
Tölfræði síðan Opta, sem heldur utan um allskonar tölfræði í boltanum, deildi færslu á dögunum þar sem það sýndi að Smalling væri að standa sig best af öllum ensku miðvörðunum í Evrópu. Þessa færslu má sjá neðst í fréttinni.
Sam, eiginkona Smalling, deildi færslunni eftir að í ljós kom að Smalling væri ekki í hópnum, og skrifaði: „Miðvörðurinn sem hefur staðið sig best af þeim ensku í Evrópu á þessari leiktíð. Gæti ekki verið stoltari!”
Smalling kom til Roma árið 2019 en hann hefur skorað þrjú mörk á þessari leiktíð fyrir liðið.