
ÍA er búið að ganga frá kaupum á Indriða Áka Þorlákssyni frá Fram. Það er Skagamaðurinn Sverrir Mar Smárason sem greinir frá þessu á Twitter í dag. Sverrir sagði frá því fyrir lokaleik síðasta tímabils að Indriði vildi fara frá Fram og nú virðist það hafa raungerst.
Sverrir, sem er meðlimur Þungavigtarinnar og umsjónarmaður Ástríðunnar segir að Indriði, sem er 27 ára miðjumaður, sé búinn að skrifa undir hjá ÍA. ,Indriði Áki Þorláksson er farinn heim í ÍA. Búið að skrifa undir, keyptur frá Fram. Vildi losna úr dalnum eins og ég fór yfir," skrifar Sverrir á Twitter og vísar í ummæli sem hann lét falla í lok október.
Þá sagði hann að Indriði væri ósáttur við gang mála í Grafarholtinu, ætti eitt ár eftir af samningi sínum við Fram og væri búinn að funda með þjálfaranum Jóni Sveinssyni um stöðuna. Indriði þekkir vel til hjá ÍA en hann lék með ÍA í yngri flokkum.
Á stuðningsmannafundi ÍA í lok síðasta árs sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, að liðið væri að klára samninga við miðvörð, sem reyndist vera Alex Davey, og ónefndan djúpan miðjumann sem ætla má að sé Indriði Áki.
Á síðasta tímabili kom Indriði við sögu 25 leikjum í Bestu deildinni, byrjaði 22 þeirra og kom inn á í þremur.
Indriði Áki Þorláksson er farinn heim í ÍA. Búið að skrifa undir, keyptur frá Fram. Vildi losna úr dalnum eins og ég fór yfir
— Sverrir Mar Smárason (@Sverrirsmarason) January 13, 2023
Athugasemdir