Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 13. febrúar 2020 13:00
Miðjan
Hélt hann væri að fá Ólympíufara - Þóttist vera fótbrotinn eftir korter
Jón Páll Pálmason.
Jón Páll Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Páll Pálmason, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, kom með skemmtilega sögu af leikmanni frá Jórdaníu í hlaðvarpsþættinum Miðjunni í dag. Umræddur leikmaður kom til Ólafsvíkinga á reynslu í vetur.

„Steini (Þorsteinn Haukur Harðarson) framkvæmdastjóri okkar, sem er hrikalega duglegur, sagði mér frá jórdönskum landsliðsmanni sem væri á leiðinni á Ólympíuleikana. Hann sagði að þetta væri fljótur sóknarmaður," sagði Jón Páll.

„Ef þú ferð á Ólympíuleikana þá fá félög pening svo þetta gat verið innan budget hjá okkur. Ég vildi fá hann á reynslu því ég ætla ekki að semja við lélega útlendinga."

Jón Páll segist hafa áttað sig á því í Leifsstöð að einhver hluti af sögunni var ekki að passa

„Hann mætti á föstudegi og við Steini fórum og sóttum hann. Ég spurði hvort hann væri á leið á Ólympíuleikana og hann sagðist vona það. 'Eruð þið komnir á Ólympíuleikana?' Hann sagði þá að þeir væru að spila í undankeppninni núna. Þá spurði ég: 'Ertu ekki í landsliðinu?' Þá sagði hann að þjálfarinn hefði hringt í sig í gær og sagt að hann myndi komast í landsliðið ef hann myndi spila 2-3 leiki. Þarna var ég orðinn nokkuð viss um að við værum ekki að fá næsta Mohamed Salah."

„Ég fór með hann út að borða og hef aldrei séð neinn sem er jafn lengi að borða á ævinni. Ég fór síðan í Egilshöll að horfa á tvo leiki og hann horfði ekki á leikinn. Hann horfði bara út í loftið."

„Síðan var æfing daginn eftir og hann meiddist á vinstri fæti í skotæfingu eftir korter. Hann var að skjóta með hægri og sagðist vera meiddur á vinstri. Hann haltraði út af og sagðist vera fótbrotinn."


Jón Páll skoðaði meiðslin og segir ekki séns að leikmaðurinn hafi verið fótbrotinn. Jón Páll laug að leikmanninum að hann væri læknismenntaður og skoðaði síðan leikmanninn vel. Leikmaðurinn var síðan sendur heim daginn eftir enda ljóst að hann var ekki leikmaðurinn sem Ólafsvíkingar voru að leita að. „Það er til nóg af trúðum sem eru að reyna að selja þér leikmenn. Við sendum á umboðsmanninn hans að hafa vinsamlegast ekki samband aftur," sagði Jón Páll.
Miðjan - Jón Páll frá Pacman Pizza til Ólafsvíkur
Athugasemdir
banner
banner