Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 13. febrúar 2021 14:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Hrun hjá Liverpool gegn Leicester
Leicester er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Leicester er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Alisson gerði slæm mistök.
Alisson gerði slæm mistök.
Mynd: Getty Images
Leicester City 3 - 1 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('67 )
1-1 James Maddison ('78 )
2-1 Jamie Vardy ('81 )
3-1 Harvey Barnes ('85 )

Það gengur hvorki né rekur hjá Englandsmeisturum Liverpool um þessar mundir.

Liverpool tapaði 1-4 gegn toppliði Manchester City um síðustu helgi en liðið spilaði mjög vel framan af á útivelli gegn Leicester á þessum laugardegi.

Mohamed Salah féll tvisvar í teignum í fyrri hálfleiknum en ekkert var dæmt. Liverpool stjórnaði ferðinni í fyrri hálfleik en Leicester fékk líklega besta færið þegar Jamie Vardy fékk sendingu inn fyrir vörnina og slapp í gegn en skot hans fór í slána.

Staðan var markalaus í hálfleik en snemma í seinni hálfleik átti Trent Alexander-Arnold skot úr aukaspyrnu sem fór í slána. Liverpool tók svo forystuna á 67. mínútu þegar Mohamed Salah skoraði með flottu skoti eftir stórkostlega sendingu frá Roberto Firmino.

Þetta mark var sanngjarnt en á stuttum tíma átti leikurinn eftir að hrynja fyrir Liverpool. Spænski miðjumaðurinn Thiago hefur ekki komið nægilega sterkur inn í lið Liverpool og hann braut af sér rétt við vítaeigslínuna á 80. mínútu. Það var skoðað í VAR hvort um vítaspyrnu hefði verið að ræða en svo var ekki. Úr aukaspyrnunni kom hins vegar mark. James Maddison tók spyrnuna sem fór í gegnum allan pakkann og í markið. Það var skoðað í VAR út af mögulegri rangstöðu en engin rangstaða var í aðdragandanum.

Stuttu síðar tók Leicester forystuna. Jamie Vardy skoraði þá eftir að Alisson kom langt út úr markinu. Youri Tielemans átti langa sendingu fram og Alisson kom langt út úr markinu. Það var eitthvað samskiptaleysi á milli hans og Ozan Kabak, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool, og Vardy skoraði í autt markið. Alisson gerði tvö slæm mistök gegn Manchester City um síðustu helgi og aftur gerði þessi vanalega trausti markvörður slæm mistök í dag.

Harvey Barnes gerði svo út um leikinn með þriðja marki Leicester. Afskaplega auðvelt mark en Leicester hefði getað skorað fleiri mörk á lokakafla leiksins.

Lokatölur 3-1 fyrir Leicester sem fer upp fyrir Manchester United í öðru sæti deildarinnar með 46 stig. Liverpool er í fjórða sæti með 40 stig. Liverpool hefur tapað fjórum af síðustu sex deildarleikjum sínum og aðeins unnið tvo af síðustu tíu í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner