mán 25.mar 2024 15:30 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Svaf ekki mikið þá nótt og síminn alveg á fullu
Sóknarmaðurinn Atli Þór Jónasson vann sig inn í hug og hjörtu stuðningsmanna HK í opnunarleik Bestu deildarinnar í fyrra þegar HK-ingar unnu magnaðan sigur á nágrönnum sínum í Breiðabliki í Kópavogsslag. Þegar Breiðablik ætlaði sér að gera lokatilraun til að sækja sigurinn þá vann Köngulóarmaðurinn, Tumi Þorvarsson, boltann með stórkostlegri tæklingu. Atli fékk boltann og horfði strax upp á markið, hann lét vaða og skoraði sigurmark í leik sem hafði gjörsamlega allt. Það augnablik var eitt það magnaðasta í fótboltanum á Íslandi á síðasta ári.
Átti eitt magnaðasta augnablik í fótboltanum á Íslandi síðasta sumar.
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Í leik með HK á undirbúningstímabilinu fyrir síðasta tímabil.
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Ég hef alltaf verið nokkuð tæknilega góður á boltann, og er heppinn núna að vera svona stór og samt með boltatæknina'
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Seinna á árinu var ég orðinn fullvaxinn og farinn að taka menn á'
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'HK bauð mér bara á æfingar fyrst. Ég fór á þrjár æfingar og svo fóru þeir í frí. Ég var svo að æfa með þeim í tvo mánuði áður en mér var boðinn samningur'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli vann sig inn í hug og hjörtu stuðningsmanna HK er hann gerði sigurmarkið gegn Breiðabliki.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings síðasta sumar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Markmiðið er að byrja leikina og skora fleiri mörk. Það er það sem ég stefni að'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég svaf ekki mikið þessa nótt og síminn var alveg á fullu. Þetta var alveg geggjað. Það er mikill munur að fara úr einhverjum kartöflugarði í 4. deildinni yfir á Kópavogsvöllinn en þetta er kvöld sem ég mun ekki gleyma," segir sóknarmaðurinn jafnframt.
Byrjaður fimm ára í Hveragerði
Á þessu kvöldi upplifði Atli sína stærstu stund á fótboltaferlinum til þessa, fótboltaferli sem hófst í Hveragerði.
„Ég var byrjaður fimm ára í fótbolta í Hveragerði. Það var byrjunin. Svo flytjum við fjölskyldan til Danmerkur þegar ég er níu ára og við búum þar í fjögur ár. Ég er með hverfisliði þar en ég fer líka á æfingar hjá AGF í Árósum. Svo kem ég aftur til Íslands þegar ég er 13 ára og fer þá aftur í Hveró. Þá eru Hamar og Selfoss með sameinalið í yngri flokkum," segir Atli.
„Það var geggjað að alast upp í Hveragerði. Við vorum alltaf bara sömu strákarnir í fótbolta. Við vorum ekki margir en þetta var góður hópur. Við vorum tíu til tólf strákar en svo fækkaði alltaf með árunum því körfuboltinn er aðeins vinsælli í Hveragerði. Þetta var mjög skemmtilegur tími þegar maður fór út í fótbolta eftir skóla með vinum sínum. Þarna var kannski hlutunum ekki tekið eins alvarlega og til dæmis í Breiðabliki eða í öðrum félögum í bænum."
Stækkaði seint
Eins og Atli nefnir, þá er Hveragerði meiri körfuboltabær en fótboltabær. Hann er sjálfur 2,03 á hæð en var þrátt fyrir það ekki mikið í körfuboltanum.
„Í vegabréfinu mínu stendur að ég sé 169 sentímetrar"
„Ég var aðeins í körfuboltanum þegar ég var yngri. Maður var í öllum íþróttum, öllum sem hægt var að fara í. En ég var mest í fótbolta," segir Atli.
„Ég stækkaði svo seint og ég var aldrei í körfubolta þegar ég var orðinn stærri. Í tíunda bekk byrjaði maður að stækka af alvöru. Í vegabréfinu mínu stendur að ég sé 169 sentímetrar en þá var ég í áttunda eða níunda bekk. Núna er ég töluvert stærri. Þetta gerist allt saman íi tíunda bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla, þá tekur maður vaxtarkipp."
„Ég hef alltaf verið nokkuð tæknilega góður á boltann, og er heppinn núna að vera svona stór og samt með boltatæknina."
Voru körfuboltaþjálfararnir í Hveragerði ekkert að reyna að fá þig yfir þegar þú varst búinn að stækka svona gríðarlega?
„Nei, það var ekkert þannig. En það er alltaf verið að spyrja mig að því í dag hvort ég hafi verið í körfubolta. Ég svara því bara neitandi," segir Atli.
Var í B- og C-liði en fer svo yfir í meistaraflokkinn
Í 3. flokki var Atli ekki að gera neinar rósir en hann var þá aðallega í B-liði í sameinuðu liði Selfoss, Hamars og Ægis. Hann var stundum í C-liði líka. Hann ákvað sumarið 2019 að reyna að koma sér í meistaraflokkinn hjá Hamri og það gekk eftir.
„Ég var í Selfossi í 3. flokki og þar var ég bara í C- og B-liði. Maður var stundum á bekknum í A-liði en ég var aldrei að byrja þar. Maður var í B-liðinu að spila og ég fékk svolítið nóg af því," segir Atli.
„Svo stækkar maður og ég manaði mig upp í það að fara á meistaraflokksæfingar hjá Hamri. Og það gekk bara vel, og ég hélt áfram þar. Eldri strákarnir voru miklu sterkari og svona, en það var skemmtilegt að vera inn í klefa með þessum strákum. Seinna á árinu var ég orðinn fullvaxinn og farinn að taka menn á. Ég endaði á að vera í þrjú ár í 4. deild með Hamri."
Fékk traustið
Atli fór hægt af stað með Hamri en sumarið 2022 blómstraði hann er hann skoraði 22 með liðinu. Þar af komu 17 mörk í 14 leikjum í 4. deildinni.
„Hafði mikla þýðingu fyrir mig að vera fyrirliði í heimaliðinu mínu"
„Munurinn var sá að það var kominn þjálfari, Unnar Jóhannsson, sem gaf mér mjög mikið sjálfstraust. Hann setti á mig fyrirliðabandið þegar ég er bara 19 ára gamall. Það hafði mikla þýðingu fyrir mig að vera fyrirliði í heimaliðinu mínu. Ég fékk auka sjálfstraust og stóð mig enn betur. Það er gott að vita að þú skiptir miklu máli í liðinu. Árin fyrir það var ég mikið á bekknum, ég var ekki að spila mikið og var ekki að skora mikið. Ég fékk traustið og sýndi að það væri hægt að treysta mér."
Æfingin skapar meistarann, eins og skáldið sagði.
„Þegar maður var 16, 17 ára þá var maður bara að leika sér. Þegar maður fór að æfa meira en hinir þá kom þetta. Þegar maður sá að strákarnir sem maður var að æfa með voru farnir að æfa í meistaraflokki, og maður sjálfur var eitthvað að dúlla sér, þá ýtti það við manni. Það er stór hluti af þessu," segir Atli en skrefið upp í meistaraflokk hjálpaði honum að bæta sig sem leikmaður.
Fór á reynslu hjá HK og vann sér inn samning
Markaskorun Atla sumarið 2022 vakti skiljanlega áhuga hjá félögum í deildum fyrir ofan. Hann náði að sannfæra HK-inga um að bjóða sér samning.
„Það voru einhver félög að hringja og spyrja út í mig. Þá hringdi formaður Hamars í mig og bauð mér lítinn samning þar sem ég fékk takkaskó með því að spila. Það var svo önnur félög gætu ekki bara tekið mig. Það var áhugi á mér, Selfoss og einhver önnur félög," segir Atli.
„HK bauð mér bara á æfingar fyrst. Ég fór á þrjár æfingar og svo fóru þeir í frí. Ég var svo að æfa með þeim í tvo mánuði áður en mér var boðinn samningur. Það var mjög skemmtilegt að æfa með HK. Ég mætti á fyrstu æfinguna og sá boltagæðin... ég var ekki alveg lélegastur en ég þurfti að aðlagast tempóinu. Ég náði að gera það nokkuð snögglega en fyrsti mánuðurinn var alveg erfiður. Svo er þetta bara geggjað núna þegar maður er kominn alveg inn í þetta," segir Atli en það er stórt stökk að fara úr 4. deild og í Bestu deildina.
„Það kom mér alveg smá á óvart að ég gæti haldið í við þessa gæja."
Skildi það alveg
Atli átti draumabyrjun með HK en fékk samt sem áður ekki sérlega stórt hlutverk í liðinu það sem eftir lifði sumars. Hann var mikið í því að koma inn af bekknum og náði ekki að bæta við markafjölda sinn. Hvernig horfir síðasta sumar við honum?
„Ég byrjaði ekki neinn leik og skoraði bara eitt mark. Ég var á fundi með Ómari (Inga Guðmundssyni, þjálfara HK) þar sem ég sagði við hann að þetta væri fyrsta tímabilið mitt í efstu deild og að ég skildi það alveg að hann vildi ekki henda mér beint í djúpu laugina. Ég var alveg nokkuð sáttur með hlutverkið sem ég var í á síðasta tímabili," segir Atli.
„Svo var ég líka aðeins meiddur í náranum síðasta sumar. Það hefur gengið ágætlega hjá mér á undirbúningstímabilinu í vetur. Ég spilaði alla leiki fram í lok janúar en þá fór ég í aðgerð á nára. Ég var að spila minn fyrsta leik í gær eftir það á móti Fylki og ég skoraði eitt mark þar. Ég er að koma mér í toppstand en ég verð tilbúinn fyrir fyrsta leik í Bestu deildinni."
Er ekki mikið að hlusta á það
HK er spáð neðsta sæti Bestu deildarinnar í sumar, rétt eins og í fyrra.
„Er ekki mikið að hlusta á það þegar þeir segja að við munum skítfalla"
„Ég vona að við stöndum okkur vel og ég mun gera allt til að hjálpa liðinu. Markmiðið er að byrja leikina og skora fleiri mörk. Það er það sem ég stefni að," segir sóknarmaðurinn stóri og stæðilegi.
„Við erum ekkert mikið að hlusta á þessa svokölluðu sérfræðinga. Persónulega finnst mér það bara hallærislegt. Ég hlusta alveg á hlaðvörp og svoleiðis en ég er ekki mikið að hlusta á það þegar þeir segja að við munum skítfalla. Okkur var spáð neðsta sæti í fyrra líka og við enduðum í níunda. Við hefðum getað endað ofar en við skitum aðeins á okkur í lokin."
„Við vorum að klára vel heppnaða æfingaferð og erum orðnir vel spenntir fyrir fyrsta leik. Okkur hlakkar mjög mikið til."
Utan fótboltans starfar Atli við kennslu og kann hann vel við sig í því hlutverki. Hann er fluttur úr heimabænum en tengingin er áfram sterk við staðinn þar þetta allt byrjaði.
„Ég er að kenna núna í Vatnsendaskóla, er að kenna 5. bekk. Ég er frá átta til fjögur, og fer svo beint á æfingar. Ég var fyrst stuðningsfulltrúi og svo var mér boðið að kenna. Núna er ég umsjónarkennari með tveimur öðrum sem er bara frábært. Þetta getur verið erfitt en er á sama tíma mjög góð reynsla. Ég er fluttur úr heimabænum en kíki samt reglulega heim," segir Atli og kveðst mjög svo sammála fréttaritara um að besti ís landsins komi úr Hveragerði.
Saga Atla er ólík flestra annara leikmanna í Bestu deildinni. Það eru ekki margir leikmenn í deildinni sem spila í 4. deild og hvað þá í þrjú ár. Atli gerði það og vann sér það inn að komast í Bestu deildina. Í sumar verður gaman að sjá hvort Hvergerðingurinn muni búa til fleiri ógleymanlegar minningar fyrir stuðningsmenn HK.