Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 13. júlí 2024 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
2. deild: Selfoss með góða forystu - Fyrsta tap Víkings
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur síðustu leikjum dagsins er lokið í 2. deild karla, þar sem topplið Selfoss vann góðan sigur á útivelli gegn Kormáki/Hvöt.

Staðan var markalaus í leikhlé en Gonzalo Zamorano skoraði tvennu í síðari hálfleik til að tryggja sigur Selfyssinga, sem eru með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

Kormákur/Hvöt er í neðri hlutanum með 12 stig eftir 12 umferðir, fjórum stigum frá fallsæti. KFG er einnig með 12 stig eftir jafntefli við KF í dag, en KF er á botninum með 8 stig.

Agnar Óli Grétarsson kom KF yfir snemma leiks en Jón Arnar Barðdal jafnaði fyrir KFG snemma í síðari hálfleik og urðu lokatölur 1-1.

Að lokum mistókst Víkingi frá Ólafsvík að verja 2. sæti deildarinnar þegar liðið kíkti í heimsókn til Húsavíkur.

Elmar Örn Guðmundsson tók forystuna fyrir Völsung á 29. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Þetta er fyrsta tap Víkings á deildartímabilinu og núna eru Ólsarar ekki lengur eina ósigraða liðið í deildinni.

Þetta er dýrmætur sigur fyrir Völsung sem gefur liðinu von um að geta barist um annað sæti deildarinnar, en Ólafsvík situr í þriðja sæti eftir þetta tap - með 23 stig úr 12 umferðum, fjórum stigum fyrir ofan Völsung.
Athugasemdir
banner
banner