Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 14. febrúar 2023 17:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umhugsunarefni fyrir íslenskan fótbolta hvað þetta er sjoppulegt
Lengjudeildin
Úr leik hjá Kórdrengjum síðasta sumar.
Úr leik hjá Kórdrengjum síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr Kaplakrika.
Úr Kaplakrika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað verður um Kórdrengi?
Hvað verður um Kórdrengi?
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Hvernig getur þetta dregist svona lengi? Hvernig er hægt að halda Íslandsmótinu í svona mikilli gíslingu?" spurði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag þegar rætt var um málefni Kórdrengja en mikil óvissa er um þátttöku félagsins í sumar.

FH hefur verið að skoða að taka yfir félagið. Eftir samræður FH og Kórdrengja var þátttökutilkynningu skilað inn og heimavöllur liðsins í Lengjudeildinni skráður Kaplakriki.

Það virðist þó vera óeining með það innan FH hvort það sé rétt fyrir félagið að taka yfir Kórdrengi. Það eru núna tæpir þrír mánuðir í að Lengjudeildin - þar sem Kórdrengir eiga að spila - muni hefjast og þessi mál eru enn öll í vinnslu.

„Er það ekki umhugsunarefni fyrir íslenskan fótbolta hvað þetta er sjoppulegt? Það er að styttast í mót og vitum ekkert um eitt liðið; það er ekki með þjálfara, það er ekki með leikmannahóp eða neitt," sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum, en hann og Tómas gagnrýndu KSÍ fyrir að leyfa þessu ferli að taka svona langan tíma.

Rætt var um það í þættinum að það þyrfti að passa upp á að svona myndi ekki gerast aftur. Þetta hefur áhrif á önnur félög sem bíða í óvissu með það hvort þau fari upp eða niður um deild.

„Eins og staðan virðist vera þá verða Kórdrengir lagðir niður nema FH taki yfir félagið," sagði Elvar Geir í þættinum en ástandið virðist hafa breyst hjá Kórdrengjum, sem er ungt félag, eftir síðustu leiktíð. Helsti drifkrafturinn á bakvið félagið, Davíð Smári Lamude, hætti þjálfun Kórdrengja eftir síðasta sumar og fór yfir til Vestra.

Mættu ekki til leiks síðasta föstudag
Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, sagði í samtali við Fótbolta.net fyrr í dag að það hafi lítið heyst frá Kórdrengjum frá því félagið skilaði inn þátttökutilkynningu fyrir um mánuði síðan. Hann segir að reglugerðirnar taki á því ef félög hætta þátttöku.

Kórdrengir þurfa næst að komast í gegnum leyfiskerfi KSÍ en skilafrestur fyrir fjárhagsgögn í leyfiskerfinu er næsta mánudag.

„Það sem gerist auðvitað á endanum, ef engum gögnum er skilað inn, þá fær viðkomandi félag ekki leyfi," segir Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ, við Fótbolta.net en á vef KSÍ má sjá refsingarnar við því ef dagsetningin er ekki virt.

Kórdrengir áttu að spila við Breiðablik síðasta föstudagskvöld í fyrsta leik í Lengjubikarnum, en Blikum var dæmdur 3-0 sigur eftir að KSÍ fékk tilkynningu kvöldið áður um að Kórdrengir myndu ekki mæta til leiks.

Kórdrengir eiga von á sekt - upp á að minnsta kosti 80 þúsund krónur - frá KSÍ fyrir að mæta ekki til leiks en næsti leikur liðsins er á föstudaginn gegn ÍBV. Óvíst er hvort liðið muni mæta til leiks þar.

FH-ingar hafa hingað til ekki viljað tjá sig um mögulega yfirtöku félagsins á Kórdrengjum.

Sjá einnig:
„Það er ekki boðlegt að það sé ekki meiri fyrirvari"
Útvarpsþátturinn - Rúnar Kristins og áhugaverð leikmannakaup
Athugasemdir
banner
banner