Viðræður við Vinicius - Isak spenntur fyrir Liverpool - United fylgist með Delap - Arsenal bíður til sumars
   fös 14. febrúar 2025 16:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
FH safnaði yfir tvær milljónir fyrir Píeta samtökin
Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH - Ellen Calmon, framkvæmdarstýra Píeta - Guðjón Elmar markaðsstjóri Kviku.
Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH - Ellen Calmon, framkvæmdarstýra Píeta - Guðjón Elmar markaðsstjóri Kviku.
Mynd: FH
Í vikunni afhentu Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH, og Guðjón Elmar Guðjónsson, verkefnastjóri markaðsmála hjá Kviku banka, Píeta samtökunum 2.200.000 króna sem safnaðist með sölu á sérstakri treyju frá FH.

Treyjan, sem meistaraflokkar FH í fótbolta spiluðu í, var gul að lit og merkt einkennisorðum Píeta samtakanna: „Það er alltaf von.“ Af hverri seldri treyju runnu 1.000 krónur óskipt til Píeta, en Auður, dóttir Kviku, tvöfaldaði þá upphæð, sem tryggði samtals 2.200.000 kr. framlag til samtakanna.

Treyjan vakti mikla athygli og var kynnt fyrir stuðningsfólki með glæsilegu myndbandi, þar sem leikmenn FH léku lykilhlutverk ásamt tónlistarmanninum Issa. Gulur litur treyjunnar vakti nostalgíu, þar sem hún skartaði gamalli útgáfu af merki FH og eldri útgáfum af vörumerkjum styrktaraðila félagsins.

„Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni og því að geta stutt við það ómetanlega starf sem Píeta samtökin vinna. Það er virkilega hvetjandi að sjá stuðningsfólk okkar sýna samhug í verki og taka svona vel við sér," sagði Garðar Ingi.

Þetta er annað árið í röð sem FH gefur út sérstaka góðgerðartreyju. Árið 2023 spiluðu meistaraflokkar félagsins nokkra leiki í bleikum treyjum, þar sem ágóðinn rann til Bleiku slaufunnar.

Píeta samtökin vinna mikilvægt starf í forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við einstaklinga og aðstandendur þeirra.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Þá er hægt að nálgast upplýsingar um Píeta samtökin hérna
.
Athugasemdir
banner
banner