fös 14. júní 2019 12:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Markvarðaþjálfari Heimis á förum - Gummi Hreiðars inn?
Guðmundur og Heimir.
Guðmundur og Heimir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari og núverandi þjálfari Al Arabi í Katar, var í viðtali við vikublaðið Tígul á dögunum. Tígull er viðburða- og upplýsingablað sem gefið er út í Vestmannaeyjum, heimabæ Heimis.

Í viðtalinu ræðir Heimir um þjálfarastarf sitt og segist þar vera hæstánægður með þjálfarateymi sitt.

Hann tekur þó fram að markvarðarþjálfarinn sé á förum. Belginn Frederic De Boever sé mjög hæfur, en hann sé á förum. Leit sé nú hafin að öðrum markvarðarþjálfara.

Heimir hlýtur að hugsa til Guðmundar Hreiðarssonar, fyrrum markvarðarþjálfara íslenska landsliðsins. Samstarf Heimis og Gumma Hreiðars gekk mjög vel upp hjá íslenska landsliðinu þegar Heimir var landsliðsþjálfari.

Þegar Erik Hamren og Freyr Alexandersson tóku við landsliðinu lét Guðmundur af störfum og tók Svíin Lars Eriksson við starfi hans.

Heimir og Gummi sátu saman á landsleiknum gegn Tyrklandi á þriðjudag. Ísland vann leikinn 2-1.

Í Miðjunni á Fótbolta.net í janúar viðurkenndi Heimir að hann hefði reynt að fá Gumma til Katar. Það gekk ekki upp þá. Heimir viðurkenndi einnig að hann gæti aftur reynt að fá Gumma.

„Ég mun reyna að fá hann en ég veit ekki hvernig staðan er hjá honum," sagði Heimir.

Í mars fór Guðmundur í verkefni með landsliði Liechtenstein þar sem Helgi Kolviðsson er þjálfari. Það starf var ekki til frambúðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner