Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 14. júní 2022 19:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eykur ekki vinsældir Arnars þegar Lars segist hafa verið rekinn
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars á Laugardalsvelli í gær.
Lars á Laugardalsvelli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson, sem náðu mögnuðum árangri sem landsliðsþjálfarar Íslands á sínum tíma, voru báðir á Laugardalsvelli í gær og sáu liðið þar gera 2-2 jafntefli gegn Ísrael í Þjóðadeildinni.

Lars var sérfræðingur í kringum leikinn fyrir sjónvarpsstöðina Viaplay og Heimir var á meðal áhorfenda upp í stúku.

„Þeir voru duglegir að sýna Heimi Hallgrímsson upp í stúku í útsendingunni í gær. Lalli (Lagerback) var mættur á hlaupabrautina þar sem hann sagði að hann hefði verið til í að vera hérna áfram en Arnar vildi vera einn," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu í dag en þar farið yfir leikinn sem var í gærkvöldi.

Lars stýrði íslenska liðinu á Evrópumótið árið 2016 - ásamt Heimi - og fór með liðinu alla leið í 8-liða úrslit mótsins, eftirminnilega. Lars kom aftur inn í teymi Íslands í febrúar árið 2021 og átti að vera nýjum reynslulitum þjálfurum liðsins innan handar, en var látinn fara í september sama ár. Var það ákvörðun Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara, að láta Lars fara þar sem þeir voru ekki sammála um hvernig ætti að gera hlutina.

Arnar hefur ekki aflað sér mikilla vinsælda í starfi landsliðsþjálfara. Liðið hefur breyst mikið undir hans stjórn af ýmsum ástæðum, sumum sem hann hefur enga stjórn á. Liðið hefur gengið í gegnum hröð kynslóðarskipti og hefur árangurinn ekki verið góður; það hafa bara komið sigrar Liechtenstein og svo naumir sigrar í vináttuleikjum gegn Færeyjum og San Marínó. Frammistaðan hefur heilt yfir ekki verið góð og þá hefur oft á tíðum verið þungt yfir á fréttamannafundum þjálfarans.

Það var talað um það í Innkastinu að það hafi ekkert verið sérlega þægilegt fyrir Arnar að hafa tvo af vinsælustu mönnum landsins á vellinum í gær.

„Ég var að tala það í útvarpsþættinum á laugardaginn að ég hefði ekki upplifað svona neikvæða stemningu gagnvart þjálfaranum. Hann er búinn að vera í brekku gagnvart öllu; úrslitin ekki að detta, neikvæð umfjöllun, erfiðir blaðamannafundir. Það hefur ekkert hjálpað til að Lalli sagði að hann hefði verið rekinn. Svo eru þeir báðir þarna, Lalli á hlaupabrautinni og Heimir upp í stúku," sagði Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu og hélt áfram.

„Starfsumhverfið hefur verið þægilegra sko, en svo var Arnar flottur á hliðarlínunni í gær og við náðum í stig. Samt hefur þetta ekki verið brjálæðislega kósý."

„Alls ekki. Hann er langt frá því að vera með þjóðina á sínu bandi," sagði Elvar og tók Tómas undir það. Það sem Lars - maðurinn sem kann það manna best að ná árangri með íslenska landsliðinu - hafi sagt í gær hafi ekki aukið vinsældir Arnars, sem eru litlar fyrir.

„Þegar Lalli segist hafa verið rekinn - í beinni útsendingu - af manni sem 70 prósent lesenda Fótbolta.net telja vera á rangri leið, það er ekki gott fyrir þjálfarann. Hann verður að standa og falla með þessu. Lalli sagði að Arnar vildi vera einn og það verður að virða það. Hann er búinn að búa til sitt teymi og við verðum að sjá hvernig það fer," sagði Tómas og telur hann að Arnar verði áfram þjálfari liðsins.
Innkastið - Landsliðið kvatt og Besta deildin boðin velkomin
Athugasemdir
banner
banner