Stuttgart er í framherjaleit þar sem félagið er að öllum líkindum að missa Serhou Guirassy frá sér í sumar. Félagið þarf því að finna verðugan leikmann til að fylla í skarðið og eru stjórnendur í viðræðum við tvo leikmenn.
Annar þeirra er Denis Undav, leikmaður Brighton sem gerði frábæra hluti á láni hjá Stuttgart á síðustu leiktíð. Það fylgdi 20 milljón evra kaupmöguleiki með lánssamningi Undav en Stuttgart, sem endaði í öðru sæti þýsku deildarinnar, hefur verið að reyna að lækka verðmiðann.
Hinn 27 ára gamli Undav skoraði 19 mörk og gaf 10 stoðsendingar í 33 leikjum með Stuttgart.
Hinn er Ermedin Demirovic, 26 ára framherji Augsburg og bosníska landsliðsins. Hann skoraði 15 mörk og gaf 10 stoðsendingar í 34 leikjum á síðustu leiktíð.
Undav og Demirovic skoruðu því samanlagt 34 mörk og gáfu 20 stoðsendingar, sem er aðeins betri árangur heldur en hjá Guirassy einum og sér. Hann skoraði 30 mörk í 30 leikjum og lagði þrisvar sinnum upp.
Þrátt fyrir að hafa raðað inn mörkunum á síðustu leiktíð er Guirassy með lágt riftunarákvæði í samningi sínum við Stuttgart. Hann gat því valið á milli ýmissa félaga í sumar og kaus að skipta yfir til Borussia Dortmund, en félagaskiptin eru ekki frágengin vegna vandræða í læknisskoðun.
Læknateymi Dortmund þarf að láta skoða annað hnéð á Guirassy betur eftir að framherjinn féll á læknisskoðun og mun félagið ekki ganga frá kaupunum fyrr en þetta mál er komið á hreint. Dortmund hefur ráðið sérfræðing til að meta hversu alvarleg meiðslin eru en það er óljóst hvað hefur valdið þeim og hversu gömul þau eru.
„Við erum að bíða eftir mati frá sérfræðingi. Við viljum fá útskýringar, leikmaðurinn vissi ekki að hann væri meiddur," sagði Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Borussia Dortmund, meðal annars við BILD.
Stuttgart var að skoða fleiri framherja í sumar og var Orri Steinn Óskarsson meðal annars nefndur til sögunnar.
Athugasemdir