Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   sun 14. júlí 2024 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Shakira verður með tónlistaratriði í hálfleik - Óviðurkenndur úrslitaleikur?
Shakira söng smellinn 'Waka Waka' fyrir HM 2010 í Suður-Afríku.
Shakira söng smellinn 'Waka Waka' fyrir HM 2010 í Suður-Afríku.
Mynd: Getty Images
Mynd: IFAB
Kólumbíska söngkonan Shakira verður með tónlistaratriði í hálfleik í úrslitaleik Copa América, þar sem Argentína og Kólumbía mætast í nótt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Copa América er með tónlistaratriði í úrslitaleiknum og mun það lengja hálfsleikshléð um tíu mínútur að minnsta kosti.

Vanalega eru 15 mínútur í leikhlé en tónlistaratriðið mun endast í um 25 mínútur.

Copa América er haldið í Bandaríkjunum og ákvað stjórn mótsins að vera með tónlistaratriði í hálfleik í tilraun til að auka áhorf. Þetta er í anda við það sem er gert í úrslitaleik tímabilsins í amerískum fótbolta, Super Bowl, þar sem mikið af fólki kveikir á sjónvarpinu til þess að horfa á hálfleikssýninguna.

Samkvæmt leikreglum fótboltans má hálfleikshlé í fótboltaleik ekki endast lengur en í 15 mínútur og því er mögulegt að úrslitaleikur Copa América verði ekki viðurkenndur sem keppnisleikur af fótboltayfirvöldum.

CONMEBOL, suður-ameríska fótboltasambandið, bað um undanþágu frá hálfleiksreglunni fyrir Copa América árið 2021 en IFAB, æðstu fótboltayfirvöld, höfnuðu þeirri beiðni.

Meðlimir IFAB óttast að lengra leikhlé muni hafa neikvæð áhrif á leikmenn, sem munu kólna alltof mikið og stórauka þannig meiðslahættu í seinni hálfleik.
Athugasemdir
banner
banner