Víkingur Ólafsvík er í fallsæti eftir kvöldið í Pepsi-deildinni en liðið tapaði gegn Stjörnunni í Garðabænum.
Lestu um leikinn: Stjarnan 3 - 0 Víkingur Ó.
„Þetta var heiðarlegur leikur. Við gáfum þeim fínasta leik. Við vorum óheppnir að fá á okkur þetta fyrsta mark en við hefðum getað jafnað snemma í seinni hálfleik. Ef við hefðum jafnað hefði þetta held ég að þetta hefði verið leikur í jafnvægi," segir Ejub Purisevic.
Markvörður Ólsara, Cristian Martínez, gerði slæm mistök í fyrsta marki Stjörnunnar en hann hefur átt gott sumar. Sjaldséð mistök.
„Við erum mannlegir. Við gerum mistök. Vonandi verða þau ekki fleiri. Hann er miður sín yfir þessu en hefur staðið sig vel fyrir okkur."
Óskar Hrafn Þorvaldsson í Pepsi-mörkunum kallaði tvo varnarmenn Ólafsvíkurliðsins "þrotamenn" eftir leik á dögunum. Sjá frétt. Hvað finnst Ejub um þau ummæli?
„Fólk hefur rétt á að tjá sig. Það sem við segjum er á okkar ábyrgð. Óskar kemur með mikla skynsemi og kannski er þetta sterkt orð sem hann notar. Hann hefur verið með mikla fagmennsku og skynsemi. Ég skil að hann hafi talað um að þetta hafi ekki verið nægilega gott hjá þeim en kannski var óþarfi að nota þetta orð. Mér finnst Óskar annars standa sig mjög vel."
Ejub segir að Ólafsvíkurliðið sé komið í ákveðinn vítahring varðandi meiðsli og leikbönn. Liðið fær Víking Reykjavík í heimsókn á sunnudag og verður án Kwame Quee og Kenan Turudija vegna leikbanna.
„Við erum ekki með stærsta hópinn í deildinni. Stundum þarf maður að nota menn sem voru að koma úr meiðslum eða eru jafnvel hálfpartinn meiddir. Við reynum bara að skipuleggja okkar vel. Fram á síðustu sekúndu ætla ég að vinna að skipulagi eins vel og ég get."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan
Athugasemdir