Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 14. nóvember 2020 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Fabregas: Wilshere einn af fáum Bretum með næga hæfileika
Mynd: Getty Images
Francesc Fabregas og Jack Wilshere voru tveir mest spennandi miðjumenn heims á sínum tíma. Fabregas kom fyrst upp í aðalliðið hjá Arsenal 2003, aðeins 17 ára gamall. Fimm árum síðar mætti Wilshere í aðalliðið, einnig 17 ára.

Fabregas er búinn að eiga flottan feril og spilaði fyrir Barcelona og Chelsea en ferill Wilshere hefur aðeins legið niður á við vegna tíðra meiðsla. Hæfileikar Wilshere voru þó óumtvíræddir og sýndi hann frábæra takta á miðju Arsenal undir stjórn Arsene Wenger.

Fabregas telur Wilshere hafa búið yfir einstökum hæfileikum og segir hann vera einn af fáum Bretum sem bjuggu yfir nægum hæfileikum til að spila fyrir Real Madrid eða Barcelona.

„Jack var gríðarlega hæfileikaríkur, einn af þeim hæfileikaríkustu sem ég hef nokkurn tímann spilað með," sagði Fabregas sem hefur spilað með mörgum af bestu knattspyrnumönnum aldarinnar.

„Hann var bara 16 ára þegar hann byrjaði að æfa með aðalliðinu og við vorum allir ótrúlega hrifnir af honum. Það er synd hvernig fór fyrir ferlinum hans því hann hefði getað orðið alvöru hetja fyrir England. Það er oft talað um slaka aðlögunarhæfni enskra leikmanna í evrópskum deildum en ég hef alltaf talið Jack vera einn af fáum Bretum með næga hæfileika til að gera góða hluti með Real Madrid eða Barcelona.

„Það sama á við um Aaron Ramsey og Gareth Bale. Þetta eru ótrúlega hæfileikaríkir leikmenn sem hefðu getað gert mikið meira á ferlinum ef ekki fyrir meiðslavandræði."


Fabregas er leikmaður Mónakó um þessar mundir. Wilshere er án samnings eftir misheppnaða dvöl hjá West Ham.
Athugasemdir
banner