Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 15. janúar 2021 23:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ég hlæ bara að því, ég fekk hann í kassann" - Ari æfir eins og brjálæðingur
Ari í æfingaleik gegn Fjölni síðasta vor.
Ari í æfingaleik gegn Fjölni síðasta vor.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari í leik með Bologna á síðasta tímabili.
Ari í leik með Bologna á síðasta tímabili.
Mynd: Ari Sigurpálsson
Markið á móti Gróttu var líklega ólöglegt, Börkur tekur boltann niður með hendinni og nær að skjóta á markið.
Markið á móti Gróttu var líklega ólöglegt, Börkur tekur boltann niður með hendinni og nær að skjóta á markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Sigurpálsson var keyptur til Bologna frá HK í júní á síðasta ári en hann hafði áður verið að láni hjá ítalska félaginu. Ari, sem er sautján ára gamall, lék með HK fram í september að láni en hélt svo út til Bologna fyrir tímabilið á Ítalíu.

Hlé hefur verið á vara- og unglingaliðs deildinni á Ítalíu síðustu þrjá mánuði eins og kom fram í viðtali við Mikael Egil fyrr í vikunni. Hvað er að frétta af Ara í Bologna?

„Það gengur vel fyrir utan að við höfum ekkert verið að spila. Ég er búinn að æfa eins og brjálæðingur í hléinu síðustu mánuði," sagði Ari við Fótbolta.net. Fyrsti leikur Primavera liðs Bologna er gegn Empoli næsta föstudag.

Hefur verið erfitt að hafa enga leiki til að stefna á undanfarna mánuði?

„Já, þetta er auðvitað búið að vera frekar erfitt, tímapunkturinn á þessu hléi hjálpaði ekki til. Ég missti af undirbúningstímabilinu og svo þegar við byrjuðum að spila var ég alltaf að lenda í minniháttar meiðslum. Ég náði því að æfa lítið fram í nóvember en síðan hef ég æft tvisvar eða þrisvar á dag, flesta daga. Það er erfitt að peppa sig í þetta en ég fékk tveggja vikna jólafrí sem braut þetta smá upp."

Er Bologna að kalla í yngri leikmenn á æfingar með aðalliðinu?

„Já, það kemur alveg fyrir. Það eru nokkrir 2001 og 2002 strákar sem hafa verið í hóp hjá þeim en eru hluti af varaliðinu í rauninni. Ég hef fengið að æfa með þeim i landsleikjahléum þegar það vantar marga í hópinn sem er mjög stór."

Ertu með eitthvað markmið fyrir mánuðina sem framundan eru?

„Ég stefni á að verða lykilmaður í varaliðinu, það er rosaleg breidd í því liði fram á við og ég er að berjast við góða leikmenn sem eru ári eða tveimur eldri en ég. Þeir hafa verið að detta í hóp í Serie A. Ég er ánægður hvernig ég hef verið að bæta mig sem leikmaður síðustu mánuði, sérstaklega búinn að bæta líkamlegan styrk en stórt markmið er að haldast heill. Ég vil spila með sjálfstrausti og ná að sýna hæfileikana mína."

Hjá Bologna eru einnig þeir Andri Fannar Baldursson, sem leikur með aðalliði félagsins, Gísli Gottskálk Þórðarson og Hlynur Freyr Karlsson (lán frá Breiðabliki). En snúum okkur að síðasta sumri þar sem Ari kom við sögu í níu leikjum HK og skoraði þrjú mörk.

Varstu heilt yfir sáttur með tímabilið með HK?

„Já ég var heilt yfir frekar sáttur, þetta var bara fínt. Ég var lengi að fá leikheimild og leikmennirnir í mínum stöðum; Jonni, Biddi, Valli og Bjarni voru allir að standa sig vel."

„Ég er ánægður með mínúturnar sem ég spilaði en auðvitað hefði ég viljað spila meira en ég gerði. En ég var bara á láni og þetta er skiljanlegt. Þetta sumar var samt hrikalega gott bæði innan vallar og utan vallar, skemmtilegt og ég lærði helling."


Ari skoraði mikið rætt jöfnunarmark gegn Gróttu þegar hann jafnaði leikinn í 4-4 undir lok leiks. Ásgeir Börkur Ásgeirsson virtist taka á móti boltanum með höndinni í aðdraganda marksins og voru Gróttumenn ekki sáttir.

Hver var þín sýn á þetta þegar þú skoraðir markið og svo eftir að hafa séð markið aftur í endursýningu?

„Markið á móti Gróttu var líklega ólöglegt, Börkur tekur boltann niður með hendinni og nær að skjóta á markið. Ég sá svo dauðan bolta í teignum og þá vissi ég strax að ég myndi ná boltanum því ég var með meiri hraða en hafsentinn."

„Ég heyrði samt að fólk hafi verið að segja að ég hafi fengið boltann í höndina eftir að ég tæklaði hann í stöngina. Ég hlæ bara að því, ég fekk hann í kassann,"
sagði Ari að lokum.

Sjá einnig:
„Reyndi að gera allt til þess að spila í Pepsi Max" (21. mars '20)
Athugasemdir
banner
banner