Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 15. janúar 2023 19:50
Brynjar Ingi Erluson
Arteta: Ég vil bara tala um fótbolta
Mikel Arteta fagnar með Bukayo Saka
Mikel Arteta fagnar með Bukayo Saka
Mynd: Getty Images
Arteta fylgir hér Ramsdale af velli eftir leikinn
Arteta fylgir hér Ramsdale af velli eftir leikinn
Mynd: Getty Images
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var hátt uppi eftir 2-0 sigur liðsins á Tottenham í Norður-Lundúnaslagnum á Tottenham Hotspur-leikvanginum í kvöld.

Mistök frá Hugo Lloris og glæsilegt skot Martin Ödegaard er það sem skildi liðin að í dag.

Tottenham kom til baka í síðari hálfleik og ógnaði marki nokkrum sinnum en Aaron Ramsdale var frábær í rammanum og varði allt sem kom í áttina að honum.

„Það er mikið af tilfinningum. Þetta er sérstakur dagur fyrir alla sem bera sömu tilfinningar og við til félagsins. Við töluðum um tækifærið til að spila af gleði því við erum með valdið til að skapa ánægju hjá fólki. Ég er viss um að við gerðum stuðningsmenn stolta og ánægða í kvöld.“

„Það að spila á þessum velli og gegn þessu liði af hugrekki og ákveðni var áhrifamikið. Gæðin sem við sýndum en við sýndum hina hliðina líka og til þess þurftum við nokkur stór augnablik frá Aaron.“

„Það voru nokkur atvik þar sem varnarleikurinn var góður en það er synd að við nýttum ekki tvö eða þrjú færi sem við fengum. Í heildina er ég ánægður með frammistöðuna og sigurinn.“

„Aaron skipti sköpum þegar við þurftum á honum að halda. Við náðum ekki að klára hlutina í teig andstæðinganna eins og við áttum að gera. Tottenham er með gæði og maður er alltaf með sóknartríóið þeirra í hausnum,“
sagði Arteta.

Arsenal er nú með átta stiga forystu á toppnum en Arteta vonar að liðið gleymi ekki gildum sínum.

„Það þýðir bara það að spilamennska okkar hefur komið okkur svona langt og við megum ekki gleyma því. Við verðum að halda áfram að spila svona og jafnvel betur því liðið getur enn bætt fullt af hlutum sem heild og sem einstaklingar og ef við einbeitum okkur að því verður allt í fínasta lagi.“

Stuðningsmaður Tottenham sparkaði í bakið á Ramsdale eftir leikinn og er það nú til rannsóknar hjá enska fótboltasambandinu en Arteta vildi ekki tjá sig mikið um það atvik.

„Hann er í góðu lagi. Ég hef ekki séð neitt og vil ekki sjá neitt. Ég vil bara tala um fótbolta og fallega leikinn sem við spiluðum en við getum skoðað þetta betur á morgun,“ sagði Arteta í lokin.
Athugasemdir
banner