Þýski framherjinn Timo Werner var létt eftir 2-0 sigur Chelsea á Newcastle í kvöld en hann skoraði loksins eftir rúmlega þriggja mánaða þurrkutímabil í deildinni.
Werner átti stóran þátt í fyrra markinu er Olivier Giroud skoraði og skoraði svo sjö mínútum síðar eftir mikla markaþurrð í deildinni.
Tímabilið hefur verið honum afar erfitt. Hann átti góða byrjun með Chelsea en síðasta mark hans var gegn Sheffield United þann 7. nóvember í deildinni.
Hann náði loksins að skora í kvöld og þungu fargi af honum létt.
„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður hjá okkur þar sem við spiluðum góðan fótbolta og ég er svo ánægður að skora loksins en það er enn mikið eftir. Ef við höldum hins vegar áfram á sömu braut þá mun tímabilið enda vel," sagði Werner.
„Sem framherji þá viltu alltaf skora og því hafa síðustu mánuðir verið erfiðir og ég var ekki ánægður með að ná ekki að skora. En þegar allt kemur til alls er þetta liðsíþrótt og þegar við vinnum þá er þetta í lagi. Ég náði að hjálpa liði mínu með stoðsendingum og snú er ég ánægður með að ná að skora."
„Það er verra fyrir framherja að komast ekki í réttu svæðin og fá færin. Ég hef fengið mörg færi en klúðrað þeim. Liðsfélagar mínir komu mér í góðar stöður þar sem ég gat skorað og ef ég held áfram þá koma mörkin eins og í dag og sama má segja um stoðsendingarnar," sagði hann ennfremur.
Athugasemdir