Andoni Iraola, stjóri Bournemouth, segir 1-0 sigurinn á Fulham í gær afar dýrmætan og að hann hafi komið á fullkomnu augnabliki.
Bournemouth hafði farið í gegnum sex deildarleiki án þess að vinna og það á versta tímapunkti.
Liðið var í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti en í dag er liðið að berjast um að komast í Evrópu- og Sambandsdeild.
Iraola var því ánægður að ná í þrjú stig og halda hreinu.
„Ég er svo ótrúlega ánægður með þessa frammistöðu. Við þurftum á henni að halda og vörðumst mjög vel í eigin teig, hreinsuðum frá, allar blokkeringarnar, grunnatriðin og föstu leikatriðin.“
„Að enda leikinn með hreint lak er svo dýrmætt því venjulega þegar við sköpum færi þá skorum við mörk. Það hefur vantað aðeins upp á í varnarleiknum í síðustu leikjum en hann var mjög góður í þessum leik.“
„Sigurinn kemur á fullkomnu augnabliki fyrir okkur. Í næstu viku fáum við annan svipaðan leik gegn Crystal Palace, sem er svipað og Fulham. Þeir spila vel þannig við þurfum að ná góðri endurheimt og mæta vel gíraðir til leiks.“
„Taflan hefur verið frekar jöfn síðustu mánuði þannig hver einustu úrslit telja,“ sagði Iraola.
Athugasemdir