Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 15. maí 2019 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Helgi Sig á von á því að Gary Martin byrji á morgun
Helgi Sigurðsson.
Helgi Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir fagna jöfnunarmarkinu gegn KR.
Fylkir fagna jöfnunarmarkinu gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fylkir tekur á móti Val í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar annað kvöld á heimavelli sínum í Árbænum klukkan 19:15.

Fylkir er með fimm stig að loknum fyrstu þremur umferðunum en liðið hefur gert jafntefli gegn ÍA og KR í síðustu tveimur leikjum í dramatískum leikjum.

Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis segir það ekki hafa nein áhrif á sig allar þær fréttir sem berast af Hlíðarenda og leikmannamálum Vals.

Þetta snýst ekki allt um Gary Martin
„Við reynum að hugsa meira og minna mest um okkur sjálfa. Megin áherslan er sett á okkur en auðvitað þurfum við að kíkja á það hvað Valur er að gera. Hvort Gary Martin spili eða ekki er ekki okkar vandamál. Við verðum viðbúnir hvoru tveggja, hvort hann spili eða ekki."

„Valur er oft með einhver trix í bókinni og reyna að afvegaleiða mann. Ég á alveg eins von á því að Gary byrji á morgun. Ég held að það séu góðar líkur á því svo lengi sem hann verði ennþá leikmaður Vals. Það skiptir okkur í rauninni engu máli. Þeir eru með fullt af öðrum góðum fótboltamönnum. Þetta snýst ekki allt um Gary Martin," sagði Helgi Sigurðsson í samtali við Fótbolta.net.

Hann vill ekki meina að það sé eitthvað öðruvísi fyrir Fylki að mæta Val á þessum tímapunkti. Valur er með eitt stig að loknum þremur umferðum.

„Mér líst alltaf vel á að mæta Val eins og öðrum andstæðingum. Við vitum að Valur er með frábært lið og frábæra leikmenn innanborðs með góða þjálfara. Það er allt til alls á Hlíðarenda. Við undirbúum okkur fyrir erfiðan leik og erum ekki að láta slá ryk í augunum á okkur með það hvort það séu vandræði þarna eða ekki."

„Valur fer pottþétt af stað einhvern tímann í sumar og það fljótlega. Við þurfum bara að sjá til þess að það gerist ekki á morgun," sagði Helgi Sig. sem lýsir Val eins og særðu dýri.

„Særð dýr ber að varast og taka alvarlega. Þeir hafa ekki náð þeirri byrjun sem þeir ætluðust sér. Þetta er liðið sem er spáð Íslandsmeistaratitlinum af langflestum. Það eru mikil gæði og reynsla í þessu liði. Við erum hinsvegar líka með mikla reynslu og gæði í okkar liði þannig við erum klárir í bátana. Okkur hefur gengið vel gegn Val í undanförnum leikjum. Við erum með gott sjálfstraust og hlökkum til þess að mæta Valsmönnum hvergi bangnir."

Gaman að sjá liðið ekki gefast upp
Í síðustu umferð gerði Fylkis 1-1 jafntefli gegn KR í Frostaskjólinu með jöfnunarmarki í uppbótartíma. Helgi segir að það megi ekki gleyma því að þetta sé aðeins eitt stig.

„Það er alltaf gaman að sjá liðið sitt ekki gefast upp. Það var mikið talað um það að KR hafi verið miklu betri í þessum leik, ég held að við höfum átt fleiri betri færi í þessum leik en KR. Ég gat ekki séð alla þessa yfirburði sem allir eru að tala um. Ég held að þetta hafi verið sanngjarnt jafntefli að lokum," sagði Helgi sem minnist á 2-2 jafntefli gegn ÍA í 2. umferðinni þar sem Fylkir fékk á sig jöfnunarmark í uppbótartíma.

„Þetta var alveg eins ánægjulegt fyrir okkur eins og það var svekkjandi að missa unninn leik gegn Skaganum niður í jafntefli í leiknum á undan. Þetta snýst um það að sækja stig í upphafi móts og koma sér fljótt í góða stöðu í deildinni. Það er hinsvegar svo mikið eftir af þessu móti og erfitt að segja til um hvernig þetta á eftir að spilast," sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner